Erlent

Tugir féllu í skotbardaga við landamæri Mexíkós og Arizona

Óli Tynes skrifar

Á þessari stundu er ekki vitað um orsök þessa skotbardaga en talið er að þarna hafi tekist á liðsmenn eiturlyfjabaróna og smyglara sem hafa að atvinnu að smygla óolöglegum innflytjendum til Bandaríkjanna.

Bardaginn var háður á strjálbýlu svæði í Mexíkó skammt frá landamærunum að Arizona fylkis. Yfirvöld í Mexíkó segja að níu manns hafi verið handteknir og að sex þeirra hafi verið særðir.

Talsvert af skotvopnum fannst á svæðinu, meðal annars sjö hríðskotarifflar. Ekki er óalgengt að glæpagengi í Mexíkó berjist um smyglleiðir til Bandaríkjanna, en svona mikið mannfall er þó sjaldgæft.

Arizona á löng landamæri að Mexíkó að mestu í óbyggðum. Fylkið er því í sérlegu uppháhaldi hjá eiturlyfja- og innflytjendasmyglurum.

Arizona setti á dögunum nýjar og strangar reglur um ólöglega innflytjendur sem hafa valdið talsverðu uppnámi í Bandaríkjunum. Ráðamenn í fylkinu hafa meðal annars verið sakaðir um kynþáttafordóma.

Yfir 23 þúsund manns hafa fallið í stríði stjórnvalda í Mexíkó við eiturlyfjabaróna á síðastliðnum þrem árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×