Viðskipti innlent

Dönsk svín fóðruð með ólöglegu íslensku hvalkjöti

Dýraverndunarsamtökin WDCS, sem stuðla að verndun hvala og höfrunga, hafa ákært Dani fyrir að nota ólöglegt íslenskt hvalkjöt í svínafóður. Þetta kemur fram í skýrslu samtakanna um verslun Íslendinga með hvalaafurðir árin 2009 og 2010.

WDCS segir að samtökin hafi fengið aðgang að áður leynilegum íslenskum upplýsingum um verslun þeirra með hvalaafurðir. Samkvæmt þeim upplýsingum hefur fiskimjöl, sem unnið er úr hvölum verið selt bæði í Danmörku og Lettlandi.

Ísland selur hvalaafurðir sínar til annarra hvalveiðiþjóða. Það brýtur hinsvegar gegn alþjóðasáttmála að selja slíkar afurðir til þjóða sem ekki stunda þessar veiðar, að því er segir í frétt um málið í Jyllands Posten.

Danskir kaupendur keyptu í janúar og mars á síðasta ári samtals um 22 tonn af „hvalamjöli" og það „er skelfileg þróun," segir Chris Butler-Stroud forstjóri WDCS. Hann hvetur dönsk stjórnvöld til að rannsaka málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×