Innlent

Ók á móti umferð á Kringlumýrarbraut

Nokkur erill var hjá lögreglu í nótt en 126 verkefni voru skráð í dagbók hennar sem er vel yfir meðallagi að sögn varðstjóra.

Um hálf tvö í nótt var ökutæki mælt á 196 kílómetra hraða í Ártúnsbrekku þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund og var ökumaðurinn sviptur ökuréttindum á staðnum.

Lögregla var við eftirlit gegn ölvunarakstri á Kringlumýrarbraut í nótt og voru 100 ökutæki stöðvuð. Fjórir ökumenn reyndust ölvaðir og voru þrír af þeim sviptir ökuréttindum til bráðabirgða.

Sá fjórði reyndi að stinga lögreglu af þegar hann varð var við vegartálma lögreglu. Þá tók hann á það ráð að aka á móti umferð að Bústaðavegi frá Kringlumýrarbraut. Maðurinn var handtekinn stuttu síðar og gistir nú fangageymslur þar til hann verður yfirheyrður vegna málsins.

Loks var sá fimmti maðurinn handtekinn í Grafarvogi en sá hafði orðið valdur að umferðaróhappi að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni.

Um klukkan fimm í morgun var sjötti ökumaðurinn síðan handtekinn í vesturbæ Reykjavíkur en sá reyndist undir áhrifum fíkniefna.

Snemma í morgun barst lögreglu síðan kæra vefna líkamsárásar en maður hafði verið laminn illa í andlitið á Lækjartorgi. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar og segist lögregla hafa upplýsingar um gerendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×