Handbolti

Ingimundur: Auðveldara að undirbúa sig fyrir Frakka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Ingimundur Ingimundarson í leik með íslenska liðinu á EM.
Ingimundur Ingimundarson í leik með íslenska liðinu á EM. Mynd/Diener
Ingimundur Ingimundarson hefur góða tilfinningu fyrir leiknum gegn Frökkum í undanúrslitum Evrópumeistaramótsins í handbolta í dag.

Ísland er nú komið í undanúrslit stórmóts annað skiptið í röð og mætir í dag Frökkum, liðinu sem Ísland tapaði fyrir í úrslitum Ólympíuleikanna árið 2008.

„Ég tel að það sé auðveldara að undirbúa okkur fyrir Frakkana en fyrir leikinn gegn Noregi," sagði varnarmaðurinn Ingimundur Ingimundarson í samtali við Vísi í gær.

Ísland mætti Noregi á fimmtudaginn og vann þá sigur, 35-34, og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitunum.

„Norðmenn voru með mjög öfluga línumenn og leituðu mikið til þeirra. Það var hins vegar engin almennileg leikáætlun hjá Norðmönnum og því erfiðara að koma sér í ákveðnar stellingar í vörninni," sagði Ingimundur.

„Frakkar hafa hins vegar sína leikáætlun og því tel ég að það sé auðveldara að undirbúa sig fyrir þann leik, sérstaklega hvað varnarleikinn varðar."

„Þó er ljóst að í franska liðinu eru betri einstaklingar en í því norska. Engu að síður hef ég góða tilfinningu fyrir leiknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×