Handbolti

Róbert: Frakkar líklega bestir í heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Róbert Gunnarsson fékk ekki úr miklu aðmoða í leiknum á móti Frökkum.
Róbert Gunnarsson fékk ekki úr miklu aðmoða í leiknum á móti Frökkum. Mynd/AFP
Róbert Gunnarsson segir að franska landsliðið sé líklega það besta í heimi. Ísland tapaði fyrir Frakklandi í dag, 36-28, í undanúrslitum Evrópumeistaramótsins í handbolta.

„Ætli þetta sé ekki besta lið í heimi. Við sjáum til hvernig fer á morgun," sagði Róbert og átti við að Frakklandi mætir annað hvort Póllandi eða Króatíu í úrslitaleik mótsins á morgun.

Róbert var í strangri gæslu í fyrri hálfleik og náði ekki skoti að marki fyrr en í síðari hálfleik.

„Mér fannst allt í lagi að berjast við þá og við spiluðum þá bara upp á að opna leiðir fyrir aðra leikmenn."

„Mér fannst fyrri hálfleikur allt í lagi og taktíkin okkar gekk upp. En við köstuðum þessu frá okkur í byrjun síðari hálfleiks með tæknilegum mistökum og það er okkar eigin sök."

„Hefðum við gert allt það sem fyrir okkur var lagt hefði þetta ekki farið svona," sagði Róbert og viðurkenndi að það væri erfitt að ná sínu besta fram gegn svo sterku liði.

„Það er oft sagt að maður spilar aldrei betur en andstæðingurinn leyfir og það er vissulega sannleikskorn í því. Við reyndum að vinna leikinn en það gekk bara ekki. Það er mjög leiðinlegt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×