Erlent

Vilja ekki sjá fanga frá Guantanamo

Borgarstjóri New York vill ekki að réttarhöldin verði haldin á Manhattan. fréttablaðið/AP
Borgarstjóri New York vill ekki að réttarhöldin verði haldin á Manhattan. fréttablaðið/AP
Michael Bloomberg, borgarstjóra í New York, hefur snúist hugur og hvetur nú leiðtoga Demókrataflokksins til að sjá til þess að réttarhöld yfir föngum frá Guantanamo-búðunum á Kúbu verði ekki haldin í New York, eins og Barack Obama Bandaríkjaforseti hafði tilkynnt. Vaxandi andstaða er fyrir því að réttarhöldin verði haldin þar í borg, og nú virðist ríkisstjórn Obama vera að láta undan þeim þrýstingi.

Bandaríska fréttastofan AP fékk þetta staðfest hjá tveimur embættismönnum stjórnarinnar, sem vilja þó ekki láta nafns síns getið.

Obama hafði tilkynnt að réttarhöldin yfir Khalid Sheikh Muhammed og fjórum öðrum mönnum, sem grunaðir eru um að hafa skipulagt árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, verði haldin í New York. Dómsalurinn, sem þau réttarhöld færu fram í, er á Manhattan-eyju, skammt frá þeim stað þar sem Tvíburaturnarnir stóðu.

Obama hafði strax við upphaf forsetatíðar sinnar fyrir rúmu ári lofað því að Guantanamo-búðunum yrði lokað innan árs. Það hefur tafist og ekki er að sjá hvenær Obama getur efnt það loforð, ef nokkurn tímann.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×