Viðskipti innlent

Norræn frumkvöðlakeppni hefst á Íslandi í mars

Sameiginleg frumkvöðlakeppni Norðurlandanna, Nordic Cleantech Open, verður formlega sett á Íslandi í lok mars. Undirbúningur og umsjón keppninnar er í höndum Venture Cup í Danmörku, Cleantech Scandinavia í Svíþjóð og Innovit á Íslandi.

Í tilkynningu swegir að auki séu samstarfsaðilar að keppninni frá Noregi, Finnlandi og Bandaríkjunum. Það er Norræna Nýsköpunarmiðstöðin (NICe) sem nú hefur tryggt grunnfjármögnun keppninnar með stuðningi sem nemur um 106 milljónum króna en að auki koma bæði opinberir aðilar og einkaaðilar í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi nú að fjármögnun keppninnar.

Keppninni verður formlega hleypt af stokkunum á Íslandi þann 26. mars nk. á einni stærstu alþjóðlegu frumkvöðlaráðstefnu sem haldin hefur verið hér á landi, MIT Global Startup Workshop, sem skipulögð er af Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við MIT háskóla og Innovit.

Tilgangur keppninnar er að setja á fót eins stærstu frumkvöðlakeppni á sviði grænnar orku og umhverfistækni í heiminum og að stimpla Norðurlöndin inn sem leiðandi svæði í heiminum á sviði umhverfisvænnar tækni og orku.

Sérstök áhersla verður lögð á að styðja við nemendur, háskóla og fyrirtæki sem stunda rannsóknir á umhverfisvænum lausnum. Keppnin verður opin fyrir jafnt sprotafyrirtækjum á byrjunarstigum sem og þeirra sem eru töluvert lengra komin og eru að leita að fjármagni til alþjóðlegrar uppbyggingar.

"Það er mikil alþjóðleg viðurkenning á því starfi sem við höfum byggt upp hjá Innovit að fá þennan stuðning frá Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni ásamt okkar samstarfsaðilum. Við teljum að þessi keppni geti orðið afdrifaríkur þáttur í því að kynna Ísland fyrir alþjóðlegum fjárfestum sem land hreinnar orku og umhverfistækni, " segir Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Innovit í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×