Erlent

Vetrarólympíuleikarnir hefjast í dag

Þýska skautaparið Aliona Savchenko og Robin Szolkowy við æfingar í gær. Mynd/AP
Þýska skautaparið Aliona Savchenko og Robin Szolkowy við æfingar í gær. Mynd/AP
Vetrarólympíuleikarnir í Vancouver í Kanada hefjast í dag. Langþráð snjókoma gladdi skipleggendur leikanna í gær.

Leikarnir verða settir með hefðbundinni hátíð sem hefst klukkan sex í dag eða klukkan tvö eftir miðnætti að íslenskum tíma. Keppni í fyrstu greinum hefst í dag en vetrarólympíuleikarnir standa yfir í 17 daga.

Undanfarnar vikur hafa skipuleggjendur í Vancouver haft áhyggjur af hlýju veðri og skorti á snjó. Þeir hafa þurft að treysta á flutningabíla og þyrlur sem hafa verið notaðar til þess að flytja snjó á nokkur keppnissvæði. Síðustu tvo daga hefur kólnað í borginni og í gær snjóaði loksins. Aftur á móti eru keppnisaðstæður í Cypress fjalli, þar sem meðal annars verður keppt á snjóbrettum, ekki nógu góðar vegna snjóskorts.

Bandaríkjamenn senda fjölmennasta liðið til Vancouver, alls 216 þátttakendur. Rúmlega 2500 keppendur 82 þjóða eru skráðir til leiks, þar af fjórir Íslendingar sem allir keppa í alpagreinum. Björgvin Björgvinsson, skíðamaður frá Dalvík, verður fánaberi Íslands á setningarhátíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×