Erlent

Heitir því að stokka upp fjármálakerfið

Í ræðustól á þingi Barack Obama flytur í fyrsta sinn hina árlegu stefnuræðu forseta.nordicphotos/AFP
Í ræðustól á þingi Barack Obama flytur í fyrsta sinn hina árlegu stefnuræðu forseta.nordicphotos/AFP

„Stjórn okkar hefur beðið nokkra pólitíska ósigra þetta ár, og suma þeirra voru verðskuldaðir,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti í stefnuræðu sinni, sem hann flutti í fyrrinótt, þeirri fyrstu sem hann flytur á forsetaferli sínum.

Hann hét því þó að halda ótrauður áfram að vinna að stefnumálum sínum, svo sem heilbrigðistryggingum og uppstokkun á fjármálakerfinu, en benti á að hann hafi tekið við mjög erfiðu og skuldsettu búi af forvera sínum, sem hann nefndi þó ekki á nafn.

Hann gagnrýndi jafnt andstæðinga sína í Repúblikanaflokknum sem samherja sína í Demókrataflokknum fyrir að setja flokkshagsmuni ofar þjóðarhagsmunum.

Megnið af ræðunni snerist um efnahagsmál og þær áhyggjur sem almenningur hefur af þeim. Hann sagðist skilja áhyggjur fólks af því að stóru bönkunum hafi verið bjargað með stórfé úr ríkissjóði, en sagðist sannfærður um að sú aðgerð hafi skipt sköpum við að koma efnahagslífinu í gang á ný.

Aðaláhersla stjórnar hans á þessu ári verður hins vegar að draga úr atvinnuleysi í landinu, og það verði gert með öðrum ráðum en fyrri stjórn brúkaði.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×