Handbolti

Arnór: Vorum sallarólegir í gærkvöldi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Mynd/DIENER

Arnór Atlason segir að menn hafi notið þess að geta slakað á í gærkvöldi eftir að ljóst var að Ísland væri öruggt í undanúrslit á EM í Austurríki.

Ísland vann Noreg í gær, 35-34, en þurfti svo að bíða eftir úrslitum leikja kvöldsins áður en ljóst varð hvaða lið yrði andstæðingur Íslands í undanúrslitum. Sem kunnugt er verður það Frakkland.

„Okkur líður mjög vel í dag þó svo að það hafi tekið smá tíma að sofna í gær eins og alltaf á leikdegi,“ sagði Arnór við Vísi í dag.

„Það var ljúft að geta flakkað á milli þeirra tveggja leikja sem voru í gangi í gærkvöldi og séð hverja við fáum. Það verður gaman að mæta Frökkunum.“

Arnór sagði þó ljóst að verkefnið verði erfitt.

„Þetta er mikil áskorun fyrir okkur en ef við ætlum að verða meistarar þá verðum við hvort eð er að vinna Frakka.“

„En við hugsum sem fyrr bara um einn leik í einu. Það hefur gefist vel hingað til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×