Erlent

Þarf að endurvekja traustið

Naoto Kan
Naoto Kan
Japanska þingið kaus í gær Naoto Kan næsta forsætisráðherra landsins. Forveri hans, Yukio Hatoyama, sagði af sér í vikunni þegar ljóst var orðið að honum tækist ekki að standa við stóru kosningaloforðin, svo sem að losa íbúa eyjunnar Okinawa við óvinsælan flugvöll Bandaríkjahers.

„Verkefni mitt er að byggja upp þessa þjóð að nýju,“ sagði Kan, sem var fjármálaráðherra í stjórn Hatoyamas.

Kan er 63 ára, hefur þótt yfirlýsingaglaður, jafnvel kallaður lýðskrumari, en á langa reynslu að baki í stjórnmálum.

Mikilvægasta verkefni Kans næstu vikurnar verður að endurvekja traust almennings á stjórninni og stjórnarflokknum fyrir þingkosningar, sem haldnar verða í næsta mánuði.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×