Viðskipti innlent

Veisla hjá loðdýrabændum, seldu fyrir 150 milljónir

Íslenskir loðdýrabændur seldu minkaskinn fyrir um 150 milljónir kr. á uppboði hjá Kopenhagen Fur í vikunni. Verð á minkaskinnum á uppboðinu hækkaði um 13% frá uppboðinu í desember en þá hækkaði verðið um 36%.

Samkvæmt frétt um uppboðið í Politiken voru fjórar milljónir minkaskinna seldar hjá Kopenhagen Fur í Glostrup og fengust 1,4 milljarðar danskra kr. fyrir. Hefur veltan á einu uppboði minkaskinna í Danmörku aldrei verið meiri í sögunni.

Meðalverð á skinn nam 324 dönskum kr. og segir Björn Halldórsson formaður Samtaka íslenskra loðdýraræktenda að nær 20.000 íslensk skinn hafi verið seld á uppboðinu. Annars selja íslenskir loðdýrabændur sín skinn aðallega á uppboðum Kopenhagen Fur í apríl og júní.

Björn reiknar með að fjöldi íslenskra skinna í apríl nemi 40-50.000 og að í júní verði 60.000 skinn seld. „Þetta verð sem nú fæst fyrir minkaskinn er eitthvað sem okkur dreymdi aldrei um," segir Björn. „Það hefði verið óskandi að hafa átt 200.000 skinn til að senda á uppboðið núna."

Eins og á uppboðinu í desember voru það Kínverjar sem keyptu mest eða yfir helming af þeim 4 milljónum skinna sem í boði voru. Reiknað er með áframhaldandi eftirspurn frá Kína í ár en spurningin er hvort verðið hækki mikið frá því sem nú er. Hækkunin nú upp á 13% kom á óvart enda hækkuðu skinnin í verði um nær 70% á síðasta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×