Erlent

Teboðshreyfingin á mikilli siglingu

Christine o‘Donnell nýliði í stjórnmálum sigraði öldungadeildarþingmanninn Mike Castle í prófkjöri repúblikana í Delaware í vikunni.fréttablaðið/AP
Christine o‘Donnell nýliði í stjórnmálum sigraði öldungadeildarþingmanninn Mike Castle í prófkjöri repúblikana í Delaware í vikunni.fréttablaðið/AP

Demókratar í Bandaríkjunum glöddust innilega í liðinni viku þegar velgengni svokallaðrar Teboðshreyfingar kom í ljós í prófkjörum Repúblikanaflokksins. Demókratar höfðu treyst á að öfgakenndur málflutningur Teboðsfólksins færi illa í kjósendur, sem frekar myndu greiða hófsamari repúblikönum atkvæði sitt. Fylgi demókrata myndi fyrir vikið styrkjast.

Gleðin í herbúðum demókrata dofnaði hins vegar þegar skoðanakannanir birtust, sem sýndu fram á gott fylgi Teboðsframbjóðenda meðal kjósenda Repúblikanaflokksins, öfugt við það sem demókratar töldu.

Undir nafni Teboðshreyfingarinnar ganga einkum yngri liðsmenn yst til hægri í Repúblikanaflokknum, sem leggja áherslu á stranga íhaldssemi í samfélags- og siðferðismálum, strangt aðhald í ríkisrekstri og takmarkalítið frelsi í markaðsviðskiptum.

Ekki eru allir repúblikanar alls kostar ánægðir með þennan liðsauka. Þannig hefur Christine O‘Donnell, sem verður í framboði fyrir repúblikana í Delaware, verið gagnrýnd af flokksfélögum hennar fyrir „ábyrgðarlausar skoðanir, kolvitlausa forgangsröðun“ og jafnvel tilhneigingu til ofsóknaræðis.

Þekktasti leiðtogi þessa hóps er Sarah Palin, fyrrverandi ríkisstjóri í Alaska, sem vann sér það til frægðar að öldungadeildarþingmaðurinn John McCain valdi hana varaforsetaefni sitt þegar hann bauð sig fram til forseta gegn Barack Obama fyrir tveimur árum.

Hún hefur verið áberandi í bandarískum stjórnmálum síðan og einatt vakið athygli fyrir kostuleg ummæli ekki síður en félagar hennar í Teboðshreyfingunni.

Bandaríkjamenn ganga til kosninga þriðjudaginn 2. nóvember næstkomandi. Kosið verður í öll sæti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þriðjung þingsæta í öldungadeild, 38 embætti ríkisstjóra auk þingsæta í nokkrum ríkjanna og ýmis önnur smærri embætti og málefni sem borin eru undir kjósendur.

Skoðanakannanir benda til þess að 75 þingsæti í fulltrúadeild gætu fallið á hvorn veginn sem er, en flest þessara þingsæta eru nú skipuð demókrötum. Repúblikanar þurfa 40 þingsæti til að ná meirihluta í fulltrúadeildinni, og gera sér vonir um að ná því markmiði.

Í öldungadeildinni þyrftu repúblikanar að bæta við sig tíu þingsætum til að ná meirihluta, en ólíklegt virðist að það takist.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×