Skoðun

Að tala sig til athafnaleysis

Ragnar Sverrisson skrifar
Alveg varð ég steinhissa þegar vinur minn Edward H. Huijbens sagði aðspurður í sjónvarpsviðtali, í tilefni þeirra gleðitíðinda að byggja ætti nýtt og glæsilegt hótel hér á Akureyri, að ekkert benti til þess að ferðamönnum myndi fjölga í bænum á næstunni. Því væri hið mesta óráð að standa í þessari uppbyggingu enda kæmi það bara niður á þeim sem fyrir væru í hótelrekstri. Með þessum línum vil ég koma því á framfæri að ég og margir Akureyringar sem ég hef talað við erum algjörlega ósammála þessu viðhorfi og teljum slíka neikvæðni eina helstu ástæðu þess að okkur tekst ekki sem skyldi að efla atvinnulífið og fjölga störfum í okkar góða bæ.

Ein þeirra atvinnugreina sem mestar vonir eru bundnar við er ferðaiðnaðurinn. Ýmislegt hefur verið gert til að efla hann og nægir að minna á lengingu flugbrautarinnar, umbætur við höfnina fyrir skemmtiferðaskip, nýjan alþjóðlegan íþróttavöll, glæsilega aðstöðu í Hlíðarfjalli sem fólk þyrpist til á veturna og síðast en ekki síst menningarmiðstöðina Hof, sem opnar mikla möguleika á alþjóðlegum ráðstefnum og listviðburðum allan ársins hring. Allt eru þetta góðar grunnstoðir til enn frekari sóknar, sem auðvitað verður að samræma og skipuleggja með öflugri markaðssókn í Evrópu og víðar. Vitað er að áhugi er mikill, til dæmis í Þýskalandi, að fljúga beint til Akureyrar og þaðan aftur til baka eftir að hafa notið bæjarins, nágrannabyggðanna og hinnar óviðjafnanlegu náttúru Norðurlands. En þrátt fyrir allt þetta er ein alvarleg hindrun sem ryðja þarf úr vegi áður en lengra er haldið. Það er skortur á hótelrými. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ýmsir hópar, innlendir og erlendir, hafa þurft frá að hverfa vegna skorts á hótelplássum á Akureyri.

Svona er ástandið í dag og því hafa þjónustufyrirtæki á þessu sviði séð tækifæri í því að bæta við hótelum og leggja til þess fram eigin fjármuni – ekki opinbera. Þetta er auðvitað mikið gleðiefni og forsenda þess að eitthvað þýði að auglýsa bæinn sem ferðamannabæ og stefna að stóraukningu á því sviði næstu ár og áratugi. Að rýna ofan í tölur gærdagsins þegar verið er að horfa til framtíðar í þessum efnum er ekki boðlegt; ungt og menntað fólk á að hafa víðari sjóndeildarhring en það. Sjálfur hef ég þá trú að ferðaiðnaðurinn muni færa bænum mínum mikinn fjölda starfa í viðbót við þau sem fyrir eru. En þá verðum við líka að vinna skipulega að því að hrinda úr vegi fyrirstöðum og flöskuhálsum hjá okkur sjálfum um leið og markaðsstarfið erlendis verður styrkt til muna. Enn fremur þarf að losna við það íhaldssama viðhorf að fleiri geti ekki komið að verki og stækkað kökuna, aukið veltu og fjölgað störfum í blómlegri atvinnugrein við ysta haf.



Skoðun

Sjá meira


×