Handbolti

Alfreð í einlægu viðtali: Verð áfram í Kiel sama hvað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason er tilfinningaríkur á hliðarlínunni.
Alfreð Gíslason er tilfinningaríkur á hliðarlínunni. Nordic Photos / Bongarts

Alfreð Gíslason er í löngu og einlægu viðtali hjá þýska dagblaðinu Kieler Nachrichten í dag þar sem hann fer yfir tímabilið og lífið utan handboltans. Vísir birtir hér þýðingu á viðtalinu.

Kiel varð á dögunum tvöfaldur meistari. Liðið varð Þýskalandsmeistari annað í röð undir stjórn Alfreðs og alls í sjötta árið í röð. Þá vann liðið einnig Meistaradeild Evrópu og er það í annað skiptið sem Alfreð vinnur þann titil - þann fyrri vann hann með Magdeburg.

Nú þegar Alfreð er kominn í sumarfrí hélt hann aftur til síns heima í Magdeburg þar sem hann nýtur sín vel í ró og friði.

Kieler Nachrichten: Herra Gíslason. Þú ert nú kominn aftur heim til þín eftir meistarafögnuðinn. Hvaða þýðingu hefur þessi staður fyrir þig?

Alfreð Gíslason: Þetta er hvíldarstaður minn og Köru, eiginkonu minnar, á góðum tímum og slæmum. Hér hugsa ég ekki um handbolta, gemsasambandið er slæmt og ég get eytt drjúgum tíma í garðinum. Þessi ró er ótrúleg. Þegar við erum að sinna okkar vinnu þá er lífið okkar í ferðatöskum og gámum og því er mikilvægt að eiga fastan stað í tilverunni. Þegar ég var látinn hætta hjá Magdeburg var ég án atvinnu í hálft ár og þá færði þetta hús mér mikla öryggistilfinningu. Við keyptum það þegar það var í niðurníslu og ég gat unnið mikið í því.

KN: Ætlar þú að halda áfram að búa þarna eftir að ferlinum lýkur?

AG: Það er planið. Ísland er of langt í burtu fyrir okkur. Það væri þó hugsanlegt að vera í þrjá mánuði á Íslandi á ári hverju og afganginn af tímanum hér. Ísland er mjög fallegt bæði í ágúst og frá janúar og fram í mars. Heimabær minn, Akureyri, er þekktur fyrir góðar skíðabrekkur. Okkur líður mjög vel í Þýskalandi og viðhorfið hér er mjög líkt því íslenska. Einnig þegar kemur að vinnu og þá er agi lykilorðið.

KN: Hluti af því er að vera stundvís. Hefur þú einhvern tímann komið seint á æfingu?

AG: Nei. Einu sinni var ég nokkrum mínútum of seinn í höllina þegar við vorum að fara að spila leik. Það skýrðist af því að eftir fyrsta heimaleikinn minn, gegn Dormagen (jafntefli, 28-28), ákvað ég að fara aðra leið í höllina, þó svo að hin hefði verið styttri. Ég festist líka einu sinni í umferðarhnút á þessari leið en ákvað frekar að borga frekar í sektarsjóðinn okkar en að fara hina leiðina.

KN: Hvaða hlutverki hefur eiginkona þín að gegna á þínum starfsferli?

AG: Hún er höfuð fjölskyldunnar og hugsar um börnin. Hún hefur sinnt sínu hlutverki ótrúlega vel enda höfum við þurft að flytja fjórtán eða fimmtán sinnum. Það gerði hún nánast allt ein.

KN: Síðustu vikurnar hafa væntanlega verið mjög erilsamar hjá þér. Verður þá þráðurinn í þér styttri?

AG: Mér finnst það ekki vera svo en konan mín myndi samsinna þér. Hún segir að ég hafi talað minna á síðustu vikum en venjulega. Mér fannst ég alla vega mjög afslappaður fyrir leikinn gegn Hamburg. Ég fer í hjólatúr tvisvar í viku til að minnka stressið og þá fæ ég yfirleitt mínar bestu hugmyndir. Á veturnar hef ég auk þess tekið upp á því að mála. Það er mjög róandi. Ég á þó enn langt í land með olíumálverkið sem ég hef verið að vinna í núna.

KN: Hvaða aðrar leiðir hefðir þú getað fetað í lífinu?

AG: Ég hefði ekki orðið góður sagnfræðingur þó svo að ég hafi lært það fag. Kannski sjómaður. Eða handverkamaður. Þegar ég var ellefu ára starfaði ég sem aðstoðarmaður í byggingarfyrirtæki pabba míns. Á Íslandi tíðkast það að vinnumennirnir grípi í flösku í hádeginu á föstudögum og þá eru það aðstoðarmennirnir sem sinna vinnunni. Ég lærði mikið þar og sú kunnátta hjálpaði mér þegar ég vann að lagfæringu hússins.

KN: Þú þjálfaðir áður lið Gummersbach og Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni. Er pressan meiri í Kiel?

AG: Það eru væntingar og markmið hjá öllum liðum. Þær eru að vísu hvergi meiri en í Kiel en ég er líka með leikmenn sem geta náð þeim markmiðum og staðið undir þeim væntingum.

KN: Hvað hefði gerst ef Kiel hefði ekki unnið neinn titil í vor.

AG: Ég hefði samt orðið ánægður því þróunin var góð hjá leikmannahópnum og okkur tókst að búa til góða undirstöðu.

KN: Hvað þyrfti að gerast svo að þú færir að íhuga að hætta hjá Kiel?

AG: Það skiptir ekki máli hvað gerist, ég verð áfram. Líka þó svo að Kiel gæti ekki lengur fengið til sín bestu leikmenn heims. Magdeburg neyddist á sínum tíma til að selja sína stærstu stjörnur. Ég náði fjórða sæti með ungu liði og það var besti árangur minn sem þjálfari Magdeburg. En þá fékk ég líka mestu gagnrýnina hjá forráðamönnum félagsins. Það er mikilvægt að þetta fólk búi yfir þolinmæði. Þess fyrir utan trúi ég því ekki að stjörnunar muni yfirgefa Kiel. Framkvæmdarstjóri Rhein Neckar-Löwen, Thorsten Storm, sagði einmitt að stjörnunar myndu frekar fara til Löwen en Kiel ef þeim býðst meiri peningur þar. Það segir allt sem segja þarf - Kiel er miðstöð handboltans.

KN: Þú sinnir allir leikgreiningu á myndböndum sjálfur. Kæmi til greina að láta aðra um það?

AG: Nei, það kemur ekki til greina. Með því að horfa sjálfur á leikina tek ég eftir öllum smáatriðunum. Það er rétt að ég eyði helmingi vinnustunda minna í myndbandsvinnu, um sex klukkustundum á dag. Sú vinna minnkar ekki þó svo að við séum að spila við það sem á að heita veikari andstæðing. Ef að mínir leikmenn skynja það að ég legg minni áherslu á slíka leiki fara þeir sjálfir að gefa eftir. Þess fyrir utan þá fæ ég alltaf hugmyndir sem ég get yfirfært á aðra leiki. Sem dæmi get ég nefnt að taktík sem ég notaði fyrst hjá Magdeburg árið 1999 er nú notuð um allan heim. Fyrirmyndin var taktík sem Barcelona notaðist stundum við. Síðar mótuðu Börsungar aðra taktík sem þeir byggðu að minni fyrirmynd.

KN: Þegar meistaratitilnum var fagnað sungu stuðningsmenn söngva um þig. Hvernig leið þér þá?

AG: Ég var stoltur. Mótttökurnar í lok tímabilsins í fyrra voru ótrúlegar. En ég átti aldrei von á því sem ég sá nú. Stuðningsmenn á götunum og á flugvellinum. Á slíkum augnablikum hugsa ég oft um hvernig þetta allt byrjaði því ég hefði auðveldlega getað orðið að floppi.

KN: Hvað voru lykilaugnablikin á tímabilinu að þínu mati?

AG: Sigurinn í Barcelona og heimaleikurinn gegn Hamburg voru mikilvægir. Þá vissum við að það sem við höfðum lagt á okkur að læra var að borga sig. Á hinn bóginn hafði tapið fyrir Gummersbach í bikarnum mikil áhrif. Það þjappaði hópnum enn betur saman. Þar hafði fyrirliðinn Marcus Ahlm afar mikilvægu hlutverki að gegna.

KN: Að hvaða leyti hefur liðið bætt sig og hvað er enn hægt að bæta?

AG: Við höfum bætt okkur í hröðu miðjunni og í seinni bylgjunni. En það sem hafði mest að segja var að bættum 3-2-1 vörnina okkar. En það þurfa fleiri leikmenn að geta spilað í því kerfi. Á miðjunni er ég bara með Filip Jicha og ég er spenntur að sjá hvernig Milutin Dragicevic kemur inn í varnarleikinn hjá okkur.

KN: Hvaða leikmaður hefur tekið mestum framförum?

AG: Án efa Filip Jicha. Hann var leikmaður ársins í mínum huga. Það var líka mikilvægt að allir nýliðarnir fundu sig vel. Dominik Klein bætti sig mikið í seinni umferðinni og það ýtti við honum að hann var ekki valinn í EM-hóp Þjóðverja. Þá minnti líka Christian Zeitz undir það síðasta á gamla tíma þegar hann var upp á sitt besta.

KN: Aron Pálmarsson er sagður vera efni sem kemur fram aðeins einu sinni á öld. Hvaða dóm leggur þú á hans þróun?

AG: Aron þurfti að taka risavaxið stökk fyrst og fremst enda mikill munur á íslensku deildinni og þeirri þýsku. En jafnvel þótt svo að hann hafi verið mjög latur í upphafi og lærði litla þýsku stóð hann alltaf fyrir sínu. Hann var alltaf bestur á Íslandi og þurfti lítið að hafa fyrir hlutinum. Það er öðruvísi hér. Það nægir ekki að vera bara efnilegur í Þýskalandi og það skilur hann vel. Hann þarf að vera fagmannlegri og þetta er líka oft spurning um manngerð. Ég tel að hann hafi það sem til þarf.

KN: Þú átt þér þrjár óskir.

AG: Að álagið á landsliðsmönnum verði minna, sérstaklega í undankeppnum stórmóta. Það væri líka gott ef Kiel væri alltaf með í lokahelgi Meistaradeildar Evrópu (Final Four). Og þegar að eldfjallið okkar á Íslandi gýs - sem er orðið löngu tímabært - óska ég mér að það verði ekki svona bjánalegt flugbann aftur. Askan er nefnilega ekki eins hættuleg og menn halda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×