Viðskipti innlent

Slitastjórn Landsbankans íhugar skaðabótamál

Slitastjórn Landsbankans telur fullt tilefni vera til skaðabótamáls á hendur fyrrverandi stjórnendum bankans. Ekkert verður skilið undan og öllum steinum velt við segir lögmaður í slitastjórninni. Kröfur gætu numið milljörðum króna.

Slitastjórn Landsbankans hefur rannsakað málefni bankans frá því hún var skipuð fyrir tæpu ári. Um mitt síðasta sumar voru ráðnir sérfræðingar sem hafa síðan þá skoðað hvort eitthvað misjafnt hafi átt sér stað fyrir hrunið og hvort starfsmenn hafi gert einhverjar ráðstafanir sem gætu reynst bótaskyldar. Samkvæmt hlutafélagalögum eru stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skyldir til að bæta hlutafélagi það tjón sem þeir hafa valdið því í störfum sínum.

Halldór Helgi Backman, lögmaður í slitastjórn Landsbanka Íslands, segir rannsóknina ganga vel. Öllum steinum sé velt við.

„Við teljum svo vera. Það er hins vegar ekki hægt að upplýsa um nánari efnistök á þessari stundu. Við þurfum fyrst að komast að hinu sanna. Þegar það er komið þá upplýsum við um okkar niðurstöður við kröfuhafa og í kjölfar þess geta það orðið opinberar upplýsingar," segir Halldór aðspurður hvort slitastjórnin hafi rekist á eitthvað sem gefi tilefni til að höfða skaðabótamál. Málin geti skipt tugum á endanum.

Halldór segir kröfurnar geta numið háum fjárhæðum. „Ef um kröfur verður að ræða þá eru það væntanlega einhverjir milljarðar eða hærri tölur en það er of snemmt að segja til um það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×