Lífið

Kominn tími á Tinna-keppni

Sveinn H. Guðmarsson og Þórarinn B. Þórarinsson stjórna Tinna-spurningakeppni á Rosenberg í dag. fréttablaðið/Valli
Sveinn H. Guðmarsson og Þórarinn B. Þórarinsson stjórna Tinna-spurningakeppni á Rosenberg í dag. fréttablaðið/Valli

Fjölmiðlamennirnir Sveinn H. Guðmarsson og Þórarinn B. Þórarinsson stjórna pöbba-spurningakeppni á Rosenberg í dag þar sem myndasöguhetjan Tinni verður í aðalhlutverki. Efnt er til keppninnar í tilefni af endurútgáfu Tinna-bókanna.

„Svo ég tali fyrir sjálfan mig hef ég alltaf haft gaman af Tinna. Ég hef verið í spurningakeppnum í gegnum tíðina og samið spurningar og ég hef iðulega laumað inn einni eða tveimur Tinna-spurningum. Þannig að það var kominn tími á að smella í eina keppni," segir Sveinn H. Guðmarsson, útvarpsmaður á Rás 2. Hann stjórnar Tinna-spurningakeppni á Rosenberg í dag klukkan 17.

Þeir félagar munu spyrja á þriðja tug Tinna-spurninga í dag og verða þær úr öllum áttum. Þrátt fyrir að vera mikill aðdáandi Tinna vill Sveinn ekki meina að hann sé fróðastur manna um þennan belgíska blaðasnáp. „Ég held að það séu menn þarna úti sem eru fróðari en ég um Tinna. Það verður gaman að sjá þá vonandi."

En hvað er svona skemmtilegt við Tinna-bækurnar? „Í fyrsta lagi eru þær ofboðslega fyndnar og þýðingar Lofts Guðmundssonar eiga þó nokkurn þátt í því. Þetta eru líka vitsmunalegar bækur sem koma inn á alvöru málefni eins og stjórnmál, framandi heima og kynþáttahyggju," segir Sveinn. „Ekki það að maður eigi að fá alla sína heimssýn úr Tinna-bókunum en ég held að maður geti lært eitthvað af þeim umfram það sem kemur fram í öðrum teiknimyndasögum."

Spurningakeppnin hefst klukkan 17 og eru kvenkyns aðdáendur Tinna sérstaklega hvattir til þátttöku. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.