Erlent

Hver var í alvöru fyrstur til tungslsins?

Óli Tynes skrifar
Tunglið, hver var fyrstur?
Tunglið, hver var fyrstur? Mynd/Óskar P. Friðriksson

Það eru til allskonar samsæriskenningar um fyrstu ferð manna til tunglsins. Sú róttækasta gengur útá að það hafi verið svindl frá upphafi til enda. Menn hafi ekki komist til tunglsins ennþá.

Bresk skólabörn hafa sínar skoðanir á þessu og fleiri hlutum. Breska blaðið Daily Telegraph segir frá könnun meðal 2000 breskra skólabarna á aldrinum 6-12 ára. Það var verið að kanna almenna þekkingu þeirra.

Eitt af hverjum fimm börnum taldi að Disney teiknimyndafígúran Buzz Lightyear hafi fyrstur manna stigið fæti á tungli. Ellefu prósent barnanna héldu að Ísak Newton hefði fundið upp eldinn og að Einstein hafi verið bróðir Frankensteins.

Eitt af hverjum sex trúði því að Helstirni Darths Vader væri sú pláneta sem væri fjærst jörðu í sólkerfi okkar. (Sem er sérstaklega heimskulegt, allir vita að Helstirnið var sprengt í loft upp fyrir löngu!)

Eitt af hverjum sex börnum þekkti ekki Barack Obama. Giskuðu á að hann væri kappaksturshetjan Lewis Hamilton, eða þá Nelson Mandela. Tólf prósent halda svo að orrustan um Bretland hafi farið fram úti í geimnum.

....og eitt af hverjum sex börnum heldur að Kristófer Kólumbus hafi fundið upp fitusogið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×