Innlent

Jónmundur: Ólafur sagði sig sjálfur úr flokknum

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.

„Það er alveg kýrskýrt að Ólafur [Áki Ragnarsson. innskt. blm.] er ekki rekinn úr flokknum. Hvorki af mér persónulega, né af miðstjórn flokksins," segir Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins en Ólafur Áki, sem áður gegndi embætti bæjarstjóra í Ölfusi, sagðist hafa verið vísað úr flokknum.

Þessum skilningi neitar Jónmundur og segir Ólaf í raun hafa sagt sig sjálfan úr flokknum.

„Staðreyndir er einfaldlega sú að í skipulagsreglum flokksins er ákvæði þess efnis að stjórnmálamenn, sem taka trúnaðarstörf fyrir aðra flokka, geta ekki verið í Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna segir hann sig úr flokknum," segir Jónmundur um Ólaf sem stofnaði A-listann í Ölfusi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og fékk tvo menn kjörna. Hann myndaði svo meirihluta með Framsóknarflokknum.

Ólafur sagði ákvörðun miðstjórnar hafa komið sér verulega á óvart þegar Jónmundur tilkynnti honum um niðurstöðu miðstjórnar sem tók málið fyrir á miðvikudaginn. Að sögn Jónmunds var skilningur miðstjórnar að Ólafur hefði farið gegn skipulagsreglum flokksins þegar hann bauð fram undir nafni A-listans.

Aðspurður hvort hann þekkti til sambærilegra mála sagðist Jónmundur ekki hafa yfirsýn yfir það.

„Þetta hefur örugglega gerst áður án þess að ég hafi yfirsýn yfir það," segir Jónmundur að lokum.






Tengdar fréttir

Afar sjaldgæft að menn séu reknir úr stjórnmálaflokkum

„Ég man ekki eftir því að nokkur hafi verið rekinn úr Sjálfstæðisflokknum,“ segir Birgir Guðmundsson, stjórnarmálafræðingur, um brottrekstur Ólafs Áka Ragnarssonar, fyrrverandi bæjarstjóra Ölfus, úr Sjálfstæðisflokknum.

Rekinn úr Sjálfstæðisflokknum degi fyrir landsfund

„Mér var vísað úr flokknum í gær,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Ölfuss, en hann var rekinn úr Sjálfstæðisflokknum í gær. Það var framkvæmdarstjóri flokksins, Jónmundur Guðmarsson, sem hringdi í hann í gær og tilkynnti honum að miðstjórn flokksins hefði ákveðið að vísa honum úr flokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×