Innlent

Hundrað hvalir skornir

Fólk á öllum aldri þusti niður í fjöru og sumir klæddu sig úr skóm og sokkum til að leyfa rauðlituðum sjónum að leika við fæturna.mynd/Páll jökull
Fólk á öllum aldri þusti niður í fjöru og sumir klæddu sig úr skóm og sokkum til að leyfa rauðlituðum sjónum að leika við fæturna.mynd/Páll jökull
Sjómenn í Þórshöfn í Færeyjum ráku í gærmorgun á land grindhvalavöðu sem í voru um 110 skepnur.

Nær allir sjómenn í bænum fóru til móts við vöðuna árla morguns eftir að fréttin barst um hana frá skipstjóra úti fyrir landinu. Hún var rekin upp í Sandfjöru þar sem allir hvalirnir voru skornir á litlum sjö mínútum. Ernst Kass, reyndur skipstjóri, segir drápið hafa verið til fyrirmyndar og gengið hratt fyrir sig.

Hvalnum er skipt á milli þeirra sem sigla út og fjölda fullorðinna og barna sem koma í fjöruna. Sá sem sér eða tilkynnir um vöðuna fær stærsta hvalinn eða þrjá minni og sjúkrahúsið og elliheimilið fá hvort sinn hvalinn. Öðrum er skipt á milli þeirra sem skrá sig hjá yfirumsjónarmanni. Hverjum hval er skipt í einingar sem kallaðar eru skinn og eru um átta skinn í meðalstórum hval. Á einu skinni er bæði spik og kjöt sem verka þarf strax.

Ernst segir grindhval vera herramannsmat. Kjötið sé borðað ferskt og þurrkað og spikið ferskt með signum fiski eða harðfiski. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×