Erlent

Norrænir velferðarflokkar missa fylgið

Mona Sahlin Leiðtogi sænska Sósíaldemókrataflokksins ræðir við blaðamenn.  nordicphotos/AFP
Mona Sahlin Leiðtogi sænska Sósíaldemókrataflokksins ræðir við blaðamenn. nordicphotos/AFP
Sænskir sósíaldemókratar hlutu slæma útreið í þingkosningunum á sunnudag. Þeir fengu 30,9 prósenta fylgi og hafa ekki fengið verri niðurstöður úr kosningum síðan 1914.

Meira en sjötíu ár eru síðan þeir hafa tapað kosningum eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu heilt kjörtímabil, þannig að stjórnmálaskýrendur eru farnir að velta því fyrir sér hvort hér séu einhver tímamót að eiga sér stað.

Sósíaldemókrataflokkarnir, höfundar norræna velferðarkerfisins, mega muna sinn fífil fegurri víðar á Norðurlöndunum, þar sem þeir hafa verið ráðandi afl í stjórnmálum meira og minna allan seinni hluta síðustu aldar – að Íslandi undanskildu.

Þannig hafa sósíaldemókratar í Danmörku nú verið í stjórnarandstöðu í næstum áratug, sem reyndar er ekki nándar nærri jafn óvenjulegt ástand þar í landi eins og í Svíþjóð.

Almennt séð er fylgi vinstriflokka á Norðurlöndunum í lágmarki þessi misserin, að því er fram kemur í fréttaskýringu eftir Helenu Spongenberg á vefsíðunni EUobserver.com.

Skýringin er, að sögn hennar, ekki síst hve mjög hefur fækkað í verkalýðsstétt þessara landa undanfarin 30 ár eftir að þungaiðnaður tók að flytjast frá Norðurlöndunum. Norðurlandabúar hafi frekar leitað í önnur störf þar sem vægi einstaklingsins er meira en starfsstéttarinnar. Mikilvægi verkalýðshreyfingar hafi að sama skapi minnkað.

Hún segir hefðbundið fylgi flokkanna farið að eldast, svo æ erfiðara verði að afla fylgis meðal yngra fólks. „Hið gamla ástarævintýri kjósenda með flokkum sósíaldemókrata er einfaldlega gufað upp,“ segir Spongenberg.

Í staðinn hafa komið fram lýðskrumsframboð, sem hafa náð fylgi með því að ala á ótta og andúð við innflytjendur og útlendinga.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×