Viðskipti innlent

S&P: Ísland af athugunarlista en horfur samt neikvæðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Standard & Poor´s lækkaði í dag lánshæfismat fyrir innlendar skuldbindingar í BBB/A-3 úr BBB+/A-2. Langtíma- og skammtíma lánshæfismat fyrir erlendar skuldbindingar er hins vegar óbreytt í BBB-/A-3.

„Þetta lánshæfismat sýnir það viðhorf okkar að meiri stöðugleiki er kominn á stöðu efnahagsmála til skamms tíma en var fyrst eftir að Íslendingar höfnuðu Icesave löggjöfinni í þjóðaratkvæðagreiðslu í byrjun mars," sagði Moritz Kraemer, sérfræðingur hjá S&P.

S&P hefur tekið Ísland af athugunarlista en segir að horfur séu samt ennþá neikvæðar.

„Horfur eru neikvæðar vegna þess að við sjáum enn hættu á dregið geti úr lánshæfi Íslands ef slitnar upp úr viðræðum um Icesave við bresk og hollensk stjórnvöld," bætti Moritz Kraemer við. „Við teljum að það myndi draga úr möguleikum Íslands hvað varðar erlenda fjármögnun, setja þrýsting á erlenda lausafjárstöðu og hamla vaxtarmöguleikum þar sem gjaldeyrishöft verða enn til staðar.

Slík framvinda myndi leiða til lækkunar á lánshæfi Íslands um eitt eða tvö þrep og það sama ætti við um efnahagsstefnu sem leiddi til skarprar gengislækkunar gjaldmiðilsins.

Óvænt uppnám pólitísks stöðugleika sem ógnaði getu Íslands til að bregðast við efnahagsáföllum í tíma, myndi einnig hafa neikvæð áhrif á lánshæfi landsins að okkar mati.

Stöðugur og varanlegur ytri jöfnuður og trúverðug efnahagsáætlun til að snúa við háum skuldatölum ríkisins myndu halda lánshæfismati áfram í BBB flokki."
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×