Erlent

Sænskir lestarfarþegar gerðu uppreisn

Óli Tynes skrifar
X2000 hraðlestin.
X2000 hraðlestin.

Tíu mínútum eftir að X2000 hraðlestin frá Stokkhólmi til Gautaborgar lagði af stað í gær varð í henni vélarbilun. Lestin stoppaði á milli tveggja jarðganga.

Og þar sat hún í steikjandi sólarhitanum í sjö klukkustundir áður en tókst að finna dráttarvagn sem gat dregið hana inn á næstu lestarstöð.

Lestin var full af farþegum og hitinn jókst jafnt og þétt þartil hann að sögn farþega var kominn yfir fimmtíu gráður.

Farþegarnir æptu á starfsfólkið að opna dyrnar og hleypa sér út en fékk þau svör að öryggisreglur bönnuðu það.

Þegar leið yfir mann í einum lestarklefanum var sessunauti hans nóg boðið. Hann tók brunaöxi og braut gluggann.

Loks eftir sjö klukkustundir var hægt að draga lestina á brautarstöð þar sem önnur lest beið þeirra.

Sú lest bilaði einnig, en ekki eins lengi. Farþegarnir komust loks til Gautaborgar eftir þrettán klukkustunda hryllingsferð.

Venjulega tekur ferðin þrjár klukkustundir.

Sænska Aftonbladet segir að svo virðist sem Sænsku járnbrautirnar hafi enga neyðaráætlun um hvernig sé hægt að hjálpa farþegum undir svona kringumstæðum.

Talsmaður fyrirtækisins var spurður að því hvað þeir hefðu gert ef einhver farþeganna hefði orðið alvarlega veikur.

-Það veit ég satt að segja ekki, var svarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×