Erlent

Og djöfullinn sagði ókei

Óli Tynes skrifar
Pat Robertson.
Pat Robertson.

Samkvæmt sögubókum unnu innfæddir Haítí búar sigur á frönskum nýlenduherrum sínum árið 1804 og lýstu yfir sjálfstæði.

Bandaríski sjónvarpspredikarinn Pat Robertson hefur eigin sýn á mannkynssögunni. Hann segir að Guð hafi refsað Haítí-búum með jarðskjálftanum vegna þess að þeir hafi á sínum tíma gert sáttmála við djöfulinn.

-Haítí var undir hælnum á Frökkum, þú veist, Napóleon þriðji eða eitthvað svoleiðis, sagði Robertson.

-Svo komu þeir saman og gerðu samning við djöfulinn. Þeir sögðu; við munum þjóna þér ef þú losar okkur við Frakka.

-Og djöfullinn sagði ókei.

Robertson sagði á sínum tíma að Guð hefði verið að refsa Bandaríkjunum fyrir fóstureyðingar með því að senda fellibylinn Katrínu á New Orleans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×