Lífið

Óvæntustu úrslit Cannes í manna minnum

Juliette Binoche var valin besta leikkonan.
Juliette Binoche var valin besta leikkonan.
Valið á sigurmynd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes kom öllum í opna skjöldu þetta árið. Tim Burton stýrði dómnefndinni sem veitti tælenskri mynd Gullpálmann. Hún heitir í lauslegri þýðingu Boonmee frændi sem man eftir sínum fyrri lífum. Það sem helst kom á óvart var að breski leikstjórinn Mike Leigh skyldi ekki vinna Gullpálmann en mynd hans, Another Year, þótti afar sigurstrangleg.

Myndin gerist á fáförnum slóðum í Tælandi og segir sögu Boonmee en nýrnabilun er að draga hann til dauða. Þá heimsækja hann kona hans og sonur. Hún er látin og hann hefur verið týndur lengi og er búinn að breytast í apa. Í kjölfarið heimsækja Boonmee fleiri andar og fjallar myndin þannig öðrum þræði um endurholdgun.

Leikstjórinn heitir Apichatpong Weerasethakul og kom sigurinn honum á óvart. Hann segir auka á ánægjuna að myndin hafi verið lítil í sniðum og afar erfitt hafi verið að taka hana upp inni í miðjum frumskógi. Leikstjórinn vann þriðja sætið á hátíðinni árið 2004. Tælenska þjóðin fagnar sigrinum nú ákaft og líkir honum við sigur á Heimsmeistaramótinu í fótbolta.

19 myndir tóku þátt í aðalkeppninni á Cannes. Ásamt Tim Burton voru leikarinn Benicio Del Toro og leikkonan Kate Beckinsale meðal annars í dómnefnd. Del Toro segir sigurmyndina sýna nýja og austræna hlið á dauðanum. Burton sagði að allir níu dómnefndarmeðlimir hefðu átt uppáhaldsmyndir sem ekki áttu upp á pallborðið hjá hinum. Beckinsale sagði að helst hefðu þau viljað finna upp fleiri verðlaun.

Sigurvegarar Cannes árið 2010:

Gullpálminn - Boonmee frændi sem man eftir sínum fyrri lífum í leikstjórn Apichatpong Weerasethakul.

Besti leikstjórinn - Mathieu Amalric fyrir myndina On Tour.

Besta leikkonan - Juliette Binoche fyrir Certified Copy.

Besti leikarinn - Javier Bardem fyrir Biutiful og Elio Germano fyrir Our Life (þeir deildu verðlaununum).

Besta handritið - Lee Chang-Dong fyrir Poetry.

Grand Prix-verðlaunin - Of Gods and Men í leikstjórn Xavier Beauvois.

Dómnefndarverðlaun - A Screaming Man í leikstjórn Mahamat-Saleh Haroun.





Tælenski leikstjórinn Apichatpong Weerasethakul tók á móti aðalverðlaununum frá Charlotte Gainsbourg.
Kristen Dunst veitti besta leikstjóranum sín verðlaun.
Þýska leikkonan Diane Kruger kom sér þægilega fyrir á milli leikaranna sem skiptu með sér verðlaununum fyrir besta leikinn, Ítalans Elio Germano og Spánverjans Javier Bardem.
Kate Beckinsale var í dómnefndinni.
Breska leikkonan Kristin Scott Thomas á rauða dreglinum.
Juliette Binoche var valin besta leikkonan





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.