Skoðun

Þjóðaratkvæðagreiðsla er alltaf bindandi

Pétur Óli Jónsson skrifar

Ég horfði á Silfur Egils þann 24. október, þar var þingmaður sem hélt því fram að þjóðaratkvæðagreiðslan vegna ESB væri ekki bindandi. Hann benti á að þingið ætti eftir að fjalla um málið eftir atkvæðagreiðsluna. Ég er ósammála túlkun þingmannsins og er þeirrar skoðunar að þingið er bundið af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Stjórnarskrá Íslands

26. grein stjórnarskrárinnar býður upp á þann möguleika að forseti synji staðfestingar á lögum. Hann hefur heimild til að vísa til þjóðarinnar sem fer með endanlegt vald. Þetta er að mínu viti alveg skýrt. Stjórnarskráin segir að það skuli vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.

Hvað er stjórnarskráin að segja? Jú hún tekur af allan vafa og segir að æðsta vald liggi hjá þjóðinni. Þegnar landsins hafa því sama vald og hluthafar í fyrirtæki. Þeir fara með æðsta vald. Að auki má benda á áfangaskýrslu frá Alþingi sem lögð var fram af forsætisráðherra árið 2007. Í þeirri skýrslu kemur fram að ,,ekki er um það deilt að í lýðræðisríki sprettur allt vald frá þjóðinni.'' Þetta getur ekki verið skýrara.

En hvað gerist ef þjóðaratkvæðagreiðsla er haldin áður en þingið tekur málið að sér? Ferlið í samningaviðræðunum er þannig að þjóðin fær samning, þjóðin mun kjósa um hann, þingið mun svo fjalla um samninginn. Ef Alþingi samþykkir þann samning þá mun forseti fá hann til undirritunar.

Er þjóðaratkvæðagreiðsla skoðanakönnun?

Ekki er hægt að túlka þjóðaratkvæðagreiðslu sem einhverja skoðanakönnun. Þegar Alþingi fær samninginn til umfjöllunar þá getur Alþingi, að mínu viti, ekki annað en farið að vilja þjóðarinnar. Sérhver þingmaður leggur drengskap sinn að ,,halda stjórnarskrá landsins''. Andi stjórnarskrárinnar er skýr, lokavaldið liggur hjá þjóðinni. Skýrsla sem unnin er af Alþingi er skýr og segir að allt vald spretti frá þjóðinni.

Alþingismenn eru aðeins bundnir af samvisku sinni. Er virkilega til alþingismaður sem telur að kjósendur kjósi eftir populisma en ekki eftir samvisku sinni? Er virkilega til alþingismaður sem hefur samvisku í að vinna gegn samvisku þjóðarinnar?






Skoðun

Sjá meira


×