Innlent

Mál gegn níumenningunum þingfest á morgun

Lára V. Júlíusdóttir.
Lára V. Júlíusdóttir.

Málið gegn níumenningunum sem ákærðir hafa verið fyrir að ráðast inn á Alþingi í búsáhaldabyltingunni verður þingfest á morgun.

Þetta staðfestir Lára V. Júlíusdóttir, settur saksóknari í málinu en Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sagði sig frá málinu sökum vanhæfis, en einn þingvörðurinn sem lenti í átökum við fólkið er tengdur honum fjölskylduböndum.

Að sögn Láru hefur engin breyting verið gerð á ákærunum og er um sama hóp fólks að ræða og upphaflega var ákærður. Hún segir það síðan ákvörðun dómarans hvenær aðalmeðferð fari fram í málinu en býst við að það verði á næstunni.

Ákærurnar beinast að níu nafngreindum mönnum fyrir meint brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu og húsbrot, með því að hafa þann 8. desember 2008, ásamt hópi óþekktra manna, ruðst í heimildarleysi inn í Alþingishúsið við Austurvöll meðan á þingfundi stóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×