Innlent

Makríll: Kvótinn gæti orðið 147 þúsund tonn

Makrílkvóti íslenskra skipa gæti orðið 147 þúsund tonn á næsta ári, eða 17 þúsund tonnum meiri en á þessu ári, og þar með meiri en nokkru sinni fyrr. Það helgast af því að Alþjóðahafrannsóknaráðið telur óhætt að auka heildarkvótann úr stofninum á næsta ári og Jón Bjarnason Sjávarútvegsráðherra ákvað í gær að hlutdeild Íslands í heildarkvótanum yrði sú sama á næsta ári og hún var í ár, eða um 16 prósent.

Nýverið slitnaði upp úr samningum Íslendinga við aðrar þjóðir, sem veiða makríl, eftir að Íslendingum buðust aðeins þrju prósent af heildinni. Þær þráast við að viðurkenna makríl við Íslandsstrendur þótt hann mokveiðist jafnvel af bryggjum umhverfis landið. Sjómenn og útvegsmenn, einkum í Skotlandi, skoruðu á stjórnmálamenn sína fyrr á árinu, að beita Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna veiðanna, sem þeir kalla stjórnlausa rányrkju.

Nokkrir úr þeim hópi urðu hinsvegar nýverið uppvísir að því að hafa stundað stórfelldar makrílveiðar utan kvóta og landað aflanum framhjá vigtum á Hjaltlandseyjum, svo árum skiptir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×