Erlent

Handtakan sögð áfall fyrir talibanana

Fréttin vekur athygli í Pakistan Íbúi í Karachi les fréttir af handtöku Baradans.Nordicphotos/AFP
Fréttin vekur athygli í Pakistan Íbúi í Karachi les fréttir af handtöku Baradans.Nordicphotos/AFP

Ráðamenn í Bandaríkjunum og Pakistan segja það mikið áfall fyrir talibanahreyfinguna að Mullah Abdul Ghani Baradar hafi verið handtekinn. Hann er sagður yfirmaður uppreisnar talibana í Afganistan.

Baradar var handtekinn í hafnarborginni Karachi, stærstu borg Pakistans, fyrir ellefu dögum. Bandarískir leyniþjónustumenn aðstoðuðu Pakistana við handtökuna.

Baradar er sagður vera næstæðsti leiðtogi talibanahreyfingarinnar, næst á eftir leiðtoganum Mullah Mohammad Omar, stofnanda hreyfingarinnar, sem fór í felur eftir að hernaður Bandaríkjanna og Natóríkjanna hófst í Afganistan árið 2001.

Baradar er sagður hafa verið aðstoðarvarnarmálaráðherra í ríkisstjórn talibana í Afganistan fyrir innrásina 2001. Hann er því hæst setti leiðtogi talibanahreyfingarinnar sem hefur verið handtekinn frá upphafi stríðsins.

Handtaka hans þykir því mikill sigur, bæði fyrir Bandaríkjamenn og fyrir Pakistana.

Ráðamenn, her og leyniþjónusta Pakistans hafa lengi verið sökuð um að hlífa leiðtogum talibana, sem taldir hafa verið í felum í landinu. Bandarískir ráðamenn hafa pirrað sig á þessu árum saman.

„Ef pakistanskir ráðamenn hefðu viljað handtaka hann, þá hefðu þeir getað gert það hvenær sem er,“ segir Sher Mohammad Akhud Zada, fyrrverandi héraðsstjóri í Helmand-héraði í Afganistan en núverandi þingmaður í Kabúl.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×