Erlent

Tugir myrtir í árás á moskur

Almennir borgarar voru skelfingu lostnir eftir blóðbaðið en árásin og skotbardagar stóðu klukkustundum saman.nordicphotos/afp
Almennir borgarar voru skelfingu lostnir eftir blóðbaðið en árásin og skotbardagar stóðu klukkustundum saman.nordicphotos/afp

Minnst 80 manns létust og fjöldi særðist í árás á tvær moskur Ahmati múslíma í borginni Lahore í Pakistan í gær. Í gærkvöldi var ekki vitað hverjir stóðu fyrir ódæðinu eða hversu margir árásar-mennirnir voru. Þeir beittu bæði hríðskotarifflum og handsprengjum áður en þrír þeirra sprengdu sprengjur sem þeir báru innanklæða.

Samkvæmt fréttum BBC hafa Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch upplýsingar um að árásin sé sprottin undan rifjum pakistanskra talibana. Ahmati múslímar eru í miklum minnihluta í landinu og sæta ofsóknum af hálfu bókstafstrúaðra múslíma sem saka þá um guðlast. Trúarhópnum var bannað að kalla sig múslíma af pakistönskum stjórnvöldum árið 1973 og árið 1984 var bannið lögfest.

BBC hefur eftir sjónarvottum að nokkrir árásarmenn hafi gert árás úr turnum bænahúsanna á sama tíma og aðrir héldu hópum fólks föngnum innandyra. Skotbardagar brutust út þegar lögregla og hermenn komu að byggingunum skömmu eftir að árásin hófst.

Árásin í gær er ekki sú fyrsta gegn Ahmati múslímum í Pakistan. Um áratugaskeið hefur reglulega verið ráðist gegn þeim en árásin í gær er sú langalvarlegasta til þessa. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×