Skoðun

Draugahúsið við Tjörnina

Sigrún Elsa Smáradóttir skrifar
Eins og greint hefur verið frá í fréttum hefur húsnæðiskostnaður sem hlutfall af heildarkostnaði borgarinnar aukist úr 10 í 14% á kjörtímabilinu. Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri reyndu í Fréttablaðinu sl. þriðjudag að réttlæta þessa hækkun á húsnæðiskostnaði sem farið hefur úr 4,6 milljörðum í 8,8 milljarða á ársgrundvelli á kjörtímabilinu. Það reyndist þeim erfitt enda óstjórn í húsnæðismálum borgarinnar á kjörtímabilinu verið algjör. Sem dæmi má nefna að borgin hefur undir þeirra stjórn flutt mikið af starfsemi sinni úr eigin húsnæði og leigir þess í stað húsnæði í háhýsi við Höfðatorg.

Á síðasta ári flutti til dæmis öll fjármálaskrifstofa borgarinnar úr ráðhúsi Reykjavíkur á Höfðatorg. Fram að því hafði farið vel um starfsmenn fjármálaskrifstofu borgarinnar á annarri hæð ráðhússins. Engin starfsemi fluttist í ráðhúsið í staðinn og stendur það því hálfautt eins og formaður borgarráðs, Óskar Bergsson, staðfesti á síðasta borgarstjórnarfundi. Sama á við um annað húsnæði borgarinnar, borgin á til dæmis húsnæði við Tjarnargötu 12 en þar hafði innri endurskoðun aðsetur á jarðhæð, nú hefur innri endurskoðun verið flutt á Höfðatorg og jarðhæðin við Tjarnargötu 12 hefur staðið auð mánuðum saman. Það er ekki skrítið að húsnæðiskostnaður borgarinnar rjúki upp úr öllu valdi þegar menn leigja húsnæði undir starfsemi án þess að losa sig við það húsnæði sem borgin á og þarf sannarlega að kosta líka þótt það standi autt. Hvað ráðhúsi Reykjavíkur viðkemur er ómögulegt að átta sig á hvað meirihlutinn var að hugsa þegar hann ákvað að skynsamlegt væri að hálf tæma ráðhúsið og leigja húsnæði undir starfsemina út í bæ, varla er ætlunin að selja ráðhúsið.

Maður hefði nú líka haldið að borgarstjóranum veitti ekki af því að hafa fjármálaskrifstofuna í næsta nágrenni á þessum síðustu og verstu tímum en kannski hæfir það betur Pollýönnuleiknum sem í gangi er í ráðhúsinu að hafa þar rúmt um sig og fjármálaskrifstofuna víðs fjarri.

Höfundur er borgarfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×