Erlent

Algert öngþveiti ríkir enn á götum Port au Prince

Óli Tynes skrifar

Algert öngþveiti ríkir enn í Port au Prince eftir jarðskjálftann. Lík liggja enn eins og hráviði um götur borgarinnar því enginn er til þess að flytja þau á brott.

Slasaðir liggja einnig enn á götum úti því sjúkrahús hrundu til grunna og ekkert fagfólk til þess að sinna þeim.

Í mörgum hverfum stendur ekki steinn yfir steini og enginn veit hversu margir liggja grafnir í rústum húsa, bæði látnir og lifandi.

Ljóst er að gríðarleg þörf er á mjög fjölmennu björgunarliði en það er einfaldlega ekki til staðar. Aðstoð er byrjuð að streyma til landsins en gera má ráð fyrir að enn líði einhverjir dagar áður en björgunarstarf kemst í fullan gang.

Íslenska björgunarsveitin var með þeim fyrstu á vettfang og vinnur nú myrkranna á milli.

Sem fyrr segir veit enginn hversu margir hafa farist. Þingmaðurinn Youri Lartou sagði í samtölum við fjölmiðla í gærkvöldi að miðað við eyðilegginguna geti þeir verið hálf milljón talsins.

Haiti er bláfátækt land og innviðir þar voru ekki sterkir fyrir. Nú eru þeir alveg horfnir. Landið er því enganvegin fært um að sinna jafnvel einföldustu björgunaraðgerðum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×