Skoðun

Hreinsunarstarfið framundan

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar
Það er mannlegt að kenna öðrum um ófarir sínar. Í því ljósi kemur það ekki á óvart að meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði kennir bankahruninu um slæma fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. En er það svo? Staða sveitarfélaga í landinu er í dag mjög misjöfn. Sum þeirra, eins og Garðabær og Seltjarnarnes, eru vel í stakk búin til að takast á við fjárhagslegar þrengingar meðan önnur geta vart fullnægt lögbundnu þjónustuhlutverki sínu.

Því miður er Hafnarfjörður í hópi verst settu sveitarfélaga landsins með skuldir á íbúa nærri tvöfalt yfir landsmeðaltalinu, en skuldirnar hafa þrefaldast í meirihlutatíð Samfylkingarinnar. Af þeirri ástæðu hefur Eftirlitsnefnd sveitarfélaga óskað skýringa á því hvernig stjórnendur bæjarins hyggjast ná tökum á rekstrinum og greiða af hinum gríðarlegu háu lánum. Eigið fé bæjarins er nú neikvætt um 760 milljónir króna og hefur bæjarstjórinn boðað að endurmeta þurfi fasteignir bæjarins til að hífa upp eiginfjárstöðuna, en öðruvísi fæst ekki lán til endurfjármögnunar eldri lána.

Undanfarna mánuði hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og VG komið meirihluta Samfylkingar til aðstoðar við gerð fjárhagsáætlunar í þeim miklu erfiðleikum sem við blasa en mikil hagræðing og niðurskurður er óhjákvæmilegur eigi bæjarfélagið að ná að halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Í þeirri vinnu höfum við Sjálfstæðismenn styrkst enn frekar í þeirri skoðun okkar hve gagngerrar breytingar á fjármálastjórn bæjarins er þörf og að komið sé að því að gefa Samfylkingunni frí frá meirihlutastjórnun.

Í þeirri tiltekt sem framundan er skiptir sköpum hvernig haldið er á málum og þurfa stjórnmálamenn þá að hafa kjark til að taka erfiðar ákvarðanir.

Ákvarðanafælni meirihluta Samfylkingarinnar í ýmsum mikilvægum og umdeildum málum hefur reynst bæjarbúum afar dýrkeypt. Ég hef mikla trú á að hægt verði að snúa við þessari þróun á fjárhagsstöðu bæjarins og að í Hafnarfirði megi halda uppi góðu samfélagi og þjónustu - en þá þurfa að koma við stjórnvölinn einstaklingar sem sýnt geta frumkvæði og áræðni og þora að hafa skoðanir í erfiðum og viðkvæmum málum.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×