Erlent

Þúsundir heimila án vatns dögum saman

Íbúar í Belfast þurfa margir að hafa töluvert fyrir því þessa dagana að nálgast vatn fyrir heimilið. nordicphotos/AFP
Íbúar í Belfast þurfa margir að hafa töluvert fyrir því þessa dagana að nálgast vatn fyrir heimilið. nordicphotos/AFP
Þúsundir heimila á Norður-Írlandi hafa verið án vatns dögum saman eftir frosthörkurnar undanfarið. Víða sprungu rör í frostinu og svo þegar þiðnaði á ný lak vatnsforðinn að stórum hluta út í jarðveginn án þess að berast inn á heimilin.

Víða þurfti að skrúfa fyrir vatnið á meðan skemmdir voru kannaðar og reynt að gera við. Sú vinna hefur gengið hægt, ekki síst vegna þess að erfitt hefur reynst að finna skemmdir í yfirgefnum húsum þar sem leiðslur hafa sprungið.

Íbúar hafa því þurft að ná sér í vatn, annað hvort keypt á flöskum úr búðum eða í neyðarvatnstönkum sem komið hefur verið upp á götuhornum.

Óttast er að sjúkdómsfaraldrar geti brotist út ef ástandið dregst á langinn.

Ofan á þetta bætast svo flóð, sem komið hafa á Norður-Írlandi síðustu daga. Sums staðar hefur flóðavatnið mengast af skólpvatni, sem enn eykur áhyggjur manna af sjúkdómum.

Stjórnvöld hafa setið á neyðarfundum vegna ástandsins. Sumar fjölskyldur hafa verið án rennandi vatns átta daga í röð og mega reikna með því að nokkrir dagar líði enn áður en þær fá vatn heim til sín.

„Fólk með ungar fjölskyldur hefur ekki getað sturtað niður úr salernum eða þvegið sér,“ segir Peter Maguire, heimilislæknir á Norður-Írlandi. „Þetta er einfaldlega ekki boðlegt.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×