Erlent

Heilbrigðisfrumvarpið í voða

Scott Brown Frambjóðandi repúblikana gerir sér góðar vonir um að hreppa sæti Kennedys.
fréttablaðið/AP
Scott Brown Frambjóðandi repúblikana gerir sér góðar vonir um að hreppa sæti Kennedys. fréttablaðið/AP

Demókratar á Bandaríkjaþingi reyna nú að bjarga heilbrigðisfrumvarpi sínu, sem fengi varla endanlegt samþykki á þingi ef repúblikani sigrar í aukakosningum í dag um þingsæti Edwards Kennedy í öldungadeildinni.

Bæði fulltrúadeild og öldungadeild þingsins samþykktu frumvarpið fyrir jól, en ekki í samhljóða útgáfu. Síðan hefur staðið yfir vinna við að samræma útgáfurnar þannig að báðar deildir geti samþykkt.

Repúblikaninn Scott Brown gerir sér góðar vonir um sigur í kosningunum í dag. Fari svo hafa repúblikanar 41 þingmann af 100, sem nægir þeim til að stöðva afgreiðslu frumvarpsins úr deildinni með málþófi.

Demókratar eiga þá varla annars úrkosta en að láta fulltrúadeildina samþykkja frumvarpið eins og öldungadeildin gekk frá því fyrir jól. Margir demókratar í fulltrúadeild eru hins vegar ósáttir við ýmis ákvæði í útgáfu öldungadeildarinnar.

Áhrifamenn innan Demókrataflokksins, ekki síst Edward Kennedy sem lést síðasta sumar, hafa áratugum saman reynt að fá þingið til að samþykkja heilbrigðisfrumvarp sem tryggði öllum, eða nánast öllum, Bandaríkjamönnum sjúkratryggingar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×