Viðskipti innlent

Eyðum 100 milljónum lítra minna af eldsneyti en árið 2006

Gissur Sigurðsson skrifar
Mynd/Vísir.
Eldsneytisnotkun hérlendis hefur dregist saman um í kringum hundrað milljónir lítra á ári frá því sem mest var árið 2006. Samdrátturinn nemur förmum fimm olíuskipa af þeirri stærð, sem flytja olíu til landsins.

Þetta er mat Hermanns Guðmundssonar forstjóra N-1 sem grannt fylgist með veltunni á þessum markaði. Mestur er samdrátturinn hjá verktökum, eða um 50 prósent.

Árið 2006 voru framkvæmdir við Kárahnjúka í hámarki, sem kölluðu á mikið eldsneyti og gríðarleg umsvif voru á almennum byggingarmarkaði. Þá nemur samdráttur vegna flugsamgangna 11 til 12 prósentum, einkum vegna færri leiguvéla og einkaþotna.

Olíunotkun flotans hefur dregist saman um 15 próent vegna minnkandi veiðiheimilda og minni vöruflutninga og svo nemur samdráttur hjá almenningi hátt í 15 prósentum, að mati Hermanns.

Svo virðist sem almenningur hafi dregið úr óþarfa akstri og að þar sem tveir bílar eða fleiri eru á heimili, sé sá eyðslugrennsti mest notaður. Þessi samdráttur hefur meðal annars haft jákvæð áhrif á vöruskiptajöfnuðinn við útlönd og vegið þar drjúgt á móti hækkunum á eldsneyti, og svo hefur hann dregið úr útblæstri óheppilegra efna út í andrúmsloftið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×