Erlent

Leyniskjalið gert opinbert

Binyam Mohamed var sendur heim frá Guantanamo árið 2009 eftir að allar ákærur á hendur honum höfðu verið felldar niður.nordicphotos/AFP
Binyam Mohamed var sendur heim frá Guantanamo árið 2009 eftir að allar ákærur á hendur honum höfðu verið felldar niður.nordicphotos/AFP
Bresk stjórnvöld neyddust í gær til að aflétta leynd af skjölum, þar sem lýst er illri meðferð á breskum ríkisborgara í fangabúðum Bandaríkjahers á Kúbu.

Áfrýjunardómstóll kvað upp þann úrskurð að stjórnvöldum væri ekki stætt á því að halda skjölunum leyndum.

Fanginn heitir Binyam Mohamed. Hann er fæddur í Eþíópíu en hefur búið á Englandi frá unglingsárum. Hann var handtekinn í Pakistan árið 2002, segist hafa verið pyntaður þar og einnig í Marokkó áður en hann var fluttur til Guantanamo árið 2004, sakaður um að hafa tekið þátt í að skipuleggja árásir á bandarísk fjölbýlishús með liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna Al Kaída.

Allar ásakanir á hendur honum voru þó felldar niður og hann var sendur til Bretlands á síðasta ári.

Leyniskjalið sem bresk stjórnvöld hafa undir höndum er stutt lýsing, fengin frá Bandaríkjamönnum, á þeirri meðferð sem hann mátti sæta þegar bandarískir leyniþjónustumenn yfirheyrðu hann í Guantanamo-búðunum.

Þar kemur fram að hann hafi meðal annars verið sviptur svefni langtímum saman og á meðan hafi honum verið hótað leynt og ljóst, til dæmis að hann yrði látinn í hendur öðrum öflum þar sem hann ætti nánast vísan dauða.

Í skjalinu er komist að þeirri niðurstöðu að þessi meðferð hljóti að teljast í það minnsta grimmileg, ómannúðleg og niðurlægjandi.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×