Innlent

Umferðarstofa: Ekki stytta ykkur leið í gegnum hverfin

Vinstri beygjur verða bannaðar á álagstímum.
Vinstri beygjur verða bannaðar á álagstímum.

Upplýsingafulltrúi Umferðarstofunnar, Einar Magnús Magnússon, hvetur ökumenn til þess að sleppa því að stytta sér leið í gegnum íbúðarhverfi, til dæmis Réttarholtsveg eða Sogaveg, í ljósi þess að vinstri beygjur eru bannaðar á annatímum á Bústaðaveginum.

Ástæðan fyrir banninu er ný stilling umferðarljósa á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar sem verða virk miðvikudaginn næsta.

Vinstri beygja frá Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut verður því bönnuð á álagstímum og er það gert til að draga úr myndun biðraða við gatnamótin.

Verst hefur ástandið verið síðdegis og teygja biðraðir sig þá langt eftir Sæbrautinni og einnig inn á Miklubraut með tilheyrandi töfum og slysahættu.

Einar Magnús hefur áhyggjur af því að ökumenn freistist til þess að stytta sér leiðir í gegnum íbúðahverfin.

„En það skapar óþarfa hættu fyrir íbúana auk þess sem ökumenn græða ekkert á þessu," segir Einar Magnús. Hann vill þá koma þeim tilmælum til ökumanna að halda frekar áfram og taka hægri beygjuna inn á Reykjanesbrautina við enda Bústaðavegar.

Og svo geta þeir sem vilja snúið við á fyrstu mislægu gatnamótunum við Stekkjarbakka.

„Það tekur í raun skemmri tíma og eykur öryggir allra," segir Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×