Erlent

Fréttaskýring: Verður hægt að stöðva olíulekann í Mexíkóflóa?

Á tveimur borpöllum er unnið að því að bora hliðarholur niður að gömlu borholunni, en í skipinu er tekið á móti olíu og hún brennd jafnóðum.
Á tveimur borpöllum er unnið að því að bora hliðarholur niður að gömlu borholunni, en í skipinu er tekið á móti olíu og hún brennd jafnóðum.

Kostnaður breska olíufélagsins BP vegna olíulekans í Mexíkóflóa er kominn upp í tvo milljarða Bandaríkjadala. Sú fjárhæð samsvarar nærri 260 milljörðum króna. Ljóst þykir að fjárútlátin eigi eftir að aukast, því engan veginn er séð fyrir endann á þessu máli.

Fyrirtækið hefur greitt 105 dali í skaðabætur til 32 þúsund einstaklinga og fyrirtækja fyrir það tjón, sem olíulekinn hefur valdið. Í síðustu viku féllst BP á að stofna 20 milljarða dala sjóð til að standa straum af skaðabótum vegna tjónsins.

Brösuglega hefur gengið að stöðva lekann úr olíubrunninum, sem hefur dælt olíu út í hafið í stórum stíl síðan olíuborpallurinn Deepwater Horizon eyðilagðist og sökk í apríl síðastliðnum.

Fyrir tæplega þremur vikum tókst loks að setja eins konar tappa ofan á brunninn, sem hægt er að dæla olíu í gegnum upp í skip á yfirborði sjávar, þar sem hún er síðan brennd. Þetta stöðvaði ekki lekann, þótt eitthvað hafi hann minnkað. Tekist hefur að dæla töluverðu magni upp í skipið á hverjum degi.

Varanleg lausn fæst þó ekki fyrr en eftir lengri tíma. Á vegum BP er verið að bora tvær borholur til hliðar við upphaflegu borholuna, með það að marki að hitta á hana svo hægt verði að dæla þykkri eðju niður í gömlu borholuna og stífla hana. Að því búnu á að setja steinsteypu niður til að loka borholunni endanlega.

Vonast er til að önnur hliðarborholan nái í mark um miðjan ágúst, en það er hægara sagt en gert. Olíuborholan sjálf er ekki nema 15 sentimetrar í þvermál, svo það verður mikil nákvæmnisvinna að hitta á hana með bor á þriggja kílómetra dýpi undir sjávarbotninum.

Starfsmenn BP segjast þó harla bjartsýnir á að þeim takist að stöðva þennan olíuleka, sem er orðinn sá versti í gjörvallri sögu Bandaríkjanna.

„Þetta er í alvöru ekkert svo erfitt,“ segir Mickey Fruge, verkstjóri um borð í borpallinum Development Drill II sem sér um að bora aðra hliðarholuna niður í hafsbotninn.

Um borð í báðum borpöllunum starfa menn allan sólarhringinn, Mistakist þeim ætlunarverk sitt, þýðir það enn þá lengri töf þangað til hægt verður að stífla gömlu borholuna. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×