Erlent

Opnum fundum frestað og reynt að semja

Fulltrúar Nýja-Sjálands, þeir Murray McCully utanríkisráðherra og Geoffrey Palmer ræða við Yasue Funayama, sjávarútvegsráðherra Japan, áður en opnum viðræðum var frestað í gær.fréttablaðið/ap
Fulltrúar Nýja-Sjálands, þeir Murray McCully utanríkisráðherra og Geoffrey Palmer ræða við Yasue Funayama, sjávarútvegsráðherra Japan, áður en opnum viðræðum var frestað í gær.fréttablaðið/ap

Anthony Liverpool, varaformaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, frestaði opnum fundum á ársfundi ráðsins í tvo daga, nokkrum mínútum eftir að fundurinn var settur í Marokkó í gær. Þess í stað funduðu aðildarríkin í lokuðum rýmum til að reyna að ná samkomulagi.

Þetta fyrirkomulag hefur verið harðlega gagnrýnt og vísuðu sumir fundargesta til viðræðna um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu; þær hefðu verið haldnar fyrir opnum tjöldum og varla væru hvalveiðar viðkvæmara mál. Liverpool, sem stýrir fundinum í fjarveru formannsins, stóð fastur við sinn keip.

Deilan snýst um hvort gefa eigi út hvalveiðikvóta fyrir ríki á borð við Ísland, Noreg og Japan, gegn því að sett verði tíu ára bann á viðskipti með hvalafurðir á milli ríkja. Til að flækja málin enn frekar hefur Suður-Kórea sóst eftir að fá einnig að veiða hvali.

Tómas H. Heiðar, fulltrúi Íslands í ráðinu, sagði í samtali við BBC að hann hefði verið bjartsýnn þegar hann kom til ráðstefnunnar. Nú væri hins vegar ljóst að sum ríki vildu ekkert gefa eftir. Ísland myndi aldrei skrifa undir samning sem ekki hefði í för með sér tilslakanir gagnvart hvalveiðum.

Samkvæmt áætlun á fundinum í Marokkó að ljúka á föstudag.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×