Viðskipti innlent

Sala á áfengi sú minnsta síðan janúar 2006

Langt er síðan svo lítil áfengissala hefur verið í einum mánuði og nú í janúar. Leita þarf allt aftur til janúar 2006 til að finna álíka raunveltu í sölu áfengis, en það ár var einum laugardegi færra í janúar en á þessu ári.

Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að dregið hefur úr sölu áfengis í takt við hækkandi verðlag. Verð á áfengi er nú 17,8% hærra en fyrir ári síðan og salan dróst saman á sama tímabili um 15% að magni til. Um áramótin hækkaði áfengisgjald um 10% og virðisaukaskattur á áfengi um eitt prósentustig. Þessi gjöld hafa vafalítið haft áhrif á sölu áfengis í janúar.

Velta dagvöruverslunar dróst saman að raunvirði og hefur ekki verið jafnlítil frá því í febrúar 2009. Hækkun á virðisaukaskatti um síðustu áramót hefur takmörkuð áhrif á verðhækkanir dagvara því sú skattahækkun náði ekki til matvæla. Minna var keypt af fötum, skóm og raftækjum í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Þó janúarútsölurnar hafi skilað aukinni veltu í krónum talið varð samdráttur að magni til.

Enn er samdráttur í sölu húsgagna. Velta húsgagnaverslunar á föstu verðlagi í janúar var aðeins um 1/3 af því sem hún var þegar mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar hófust í ágúst 2007. Verð á húsgögnum hefur samt hækkað minna en á öðrum sérvörum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×