Erlent

Hunsa allar viðvaranir og hótanir

Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins skýrir frá áformum stjórnvalda á blaðamannafundi í gær.Nordicphotos/AFP
Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins skýrir frá áformum stjórnvalda á blaðamannafundi í gær.Nordicphotos/AFP
Leiðtogar valdamikilla Vesturlanda hafa nú árum saman reynt að hemja kjarnorkuvinnslu í Íran og óttast fátt meira en að Írönum takist að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Íranar standa fastir á því að þeir ætli sér eingöngu að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi, en hafa ekki fallist á óheft eftirlit Kjarnorkueftirlitsstofnunar Sameinuðu þjóðanna til að fá það staðfest.

Vesturlönd hafa samþykkt refsiaðgerðir og hóta frekari refsiaðgerðum, en Íranar láta slíkt jafnan sem vind um eyrun þjóta og fara sínu fram.

Nú síðast í gær tilkynntu írönsk stjórnvöld að þau ætli að auðga úran, eins og það er nefnt, allt upp í 20 prósent hreinleika, en til þessa hefur þeim einungis tekist að auðga úran sitt upp í 3,5 prósent. Til þess að geta notað úranið í kjarnorkuvopn þarf hreinleiki þess að vera kominn upp í 90 prósent.

Ramin Mehmanparast, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, segir að það muni lítið hjálpa að Vesturlönd fái Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja enn eina ályktun gegn Íran í þessu máli.

„Það hjálpar ekki til við að leysa deiluna milli Írans og Vesturlanda,“ sagði hann. „Þau hafa algerlega rangt fyrir sér ef þau halda að þjóð okkar muni gefa eftir eitt einasta skref.“ - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×