Skoðun

Málvernd eða stöðnun?

Þorgrímur Gestsson skrifar
Það gleður mig að við Ásgrímur Angantýsson, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins, skulum vera sammála um „það meginsjónarmið íslenskrar málstefnu að það beri að varðveita íslenskt málkerfi í megindráttum og efla málnotkun á sem flestum sviðum". En samt skil ég ekki enn hvar skilin eru á milli eðlilegra athugasemda við málfar og „bókstafstrúarmanna með staðnaðan hugsunarhátt" - ef svo mætti að orði komast.

Með öðrum orðum: Hvernig ber að skilgreina „dómhörku og alltof ríka tilhneigingu til umvöndunar í umræðu og ábendingum um málfar"?

Falla til að mynda meistari HH, Hallbjörn Halldórsson prentari, og Jón Helgason ritstjóri, svo tveir „málvöndunarmenn" fortíðarinnar séu nefndir, undir þá skilgreiningu? Og telst þá hugsunarháttur þeirra sem halda enn uppi málvöndunarumræðu, nærri 70 árum síðar, vera staðnaður?

Ég velti t.d. fyrir mér hvort sé of mikil dómharka að gera athugasemd við þau orð fréttamanns í tíu-fréttum Sjónvarps 12. júlí sl. að einhverjir kaupsýslumenn vildu „festa kaup á kolkrabbann getspaka", sem spáði rétt um úrslit allra leikjanna í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Eða að benda fólki á að það sé einfaldlega ekki rétt að segja „spá í því" eins og nánast allt ungt fólk segir og ég heyrði í Ríkisútvarpinu nýverið (þetta er samsláttur á orðatiltækjunum „spá í það" og „pæla í því" svo það sé á hreinu).

Er óviðeigandi „neikvæðni" fólgin í því að benda fréttamönnum Ríkisútvarpsins á að „hlutabréf" og „hlutafé" er tvennt? Nú er „hlutafé" oftast haft um hvort tveggja. Eða leyfist manni að benda á ofnotkun viðtengingarháttar án þess að vera nefndur „bókstafstrúarmaður"? Eitt sinn var sagt við mig í verslun: „Það er þarna í hillunni ef það sé til". Eða ofnotkun svonefnds dvalarhorfs? „Ég er ekki að skilja þetta". Ég hef áður skrifað grein um það sem ég nefndi „andlát sagnbeyginga"; ég benti á að ef sögnin „að vera" og nafnháttur umsagnarinnar er ætíð notað í stað einfaldrar nútíðar (ég skil þetta ekki) stendur sögnin óbeygð. Íslenskufræðingar fullyrða sumir að þetta sé hættulaust en ég fullyrði á móti að með þessari breytingu sé verið að útrýma sagnbeygingum, einu af einkennum íslenskrar tungu.

Það er einkennandi fyrir yngri kynslóðir íslenskufræðinga að þeir eru hræddir við hinar „einstrengingslegu viðmiðanir um rétt og rangt". Þess vegna er að þeirra mati eina rétta leiðin að líta á öll afbrigði í málfari sem „málvenju". Þetta kann að eiga við um sumt en ef þessu er fylgt allt til enda kallast það ekkert annað en að tungumálið sé látið reka á reiðanum (það er einmitt reiðareksstefnan, sem ráðunauturinn nefnir nokkuð hæðnislega í upphaflegri grein sinni).

Íslendingar eru eina Norðurlandaþjóðin sem hefur aldrei týnt ritmáli sínu. Íslenskur almenningur hefur alla tíð getað notfært sér þetta forna ritmál sem hefur verið eins konar „lím" hins talaða tungumáls. Af þeim sökum hefur íslenskan breyst mun minna en önnur tungumál á Norðurlöndum til þessa en í seinni tíð hefur hún haft tilhneigingu til að þróast í sömu átt og þau hafa gert, til einföldunar og fábreytni í orðavali. Gegn þessu tel ég nauðsynlegt að sporna.

Fyrrnefndur Hallbjörn Halldórsson skrifaði árið 1944 að framtíðarhugsjón okkar Íslendinga um íslenskt mál ætti að vera að skila því til eftirkomendanna að þúsund árum liðnum minna breyttu en eftir þúsund árin sem enduðu þá „en miklum mun auðugra, tamdara, ræktaðra, fágaðra og fullkomnara, svo að Íslendingar, er lifa og minnast vor og feðra vorra á þjóðhátíðinni 17. dag júnímánaðar árið 2944, eigi ekki erfiðara með að skilja ræðu fyrsta forseta Íslands á Lögbergi að Þingvöllum þennan dag í ár en vér til dæmis ræðu Einars Þveræings nú eða Hafursgrið, ef þau eru skilmerkilega lesin og skynsamlega flutt."

Hvort er málrækt í þessum anda staðnaður hugsunarháttur og rakalaus gagnrýni eða umræða sem við eigum að þora að taka?




Skoðun

Sjá meira


×