Erlent

Maðurinn með ljáinn og konan með sverðið

Óli Tynes skrifar
Ekki nema von að maðurinn með ljáinn yrði hræddur.
Ekki nema von að maðurinn með ljáinn yrði hræddur. Úr kvikmyndinni Kill Bill

Þrítug norsk kona varð af einhverjum sökum afskaplega pirruð þegar karlmaður byrjaði að slá garð nágrannans með orfi og ljá.

Þetta var klukkan átta á sunnudagskvöldið og sláttumaðurinn var gestkomandi á heimili nágrannans.

Orf er ekki hávært verkfæri og maðurinn hélt í sakleysi sínu að enginn myndi amast við fornlegum búskaparháttum þótt í bæ væri.

Konunni varð hinsvegar svo mikið um að hún greip japanskt samurai sverð og þaut út í garðinn.

Manninum með ljáinn leist ekki á blikuna og það var kallað á lögregluna. Hún gerði sverðið upptækt en maðurinn fékk að halda orfinu.

Í frétt Aftenposten af þessu atviki er ekki getið um aðra eftirmála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×