Erlent

Voru hársbreidd frá því að ná bin Laden

Osama bin Laden.
Osama bin Laden.

Vestrænar leyniþjónustur komust mun nær því að handsama Osama bin Laden eftir ellefta september en áður hefur verið talið.

Fyrrverandi yfirmaður hjá evrópskri leyniþjónustu sem vill ekki láta nafns síns getið segir í samtali við CNN fréttastofuna að á árunum 2003 og 2004 hafi uppljóstrari innan raða al - Kaída hryðjuverkasamtakanna látið vestrænum leyniþjónustumönnum í té mikið magn upplýsinga um dvalarstaði bin Ladens, mannsins sem sagður er hafa skipulagt hryðjuverkaárásir á Bandaríkin árið 2001.

Þrátt fyrir þetta gat bin Laden forðast handtöku þar sem hann færði sig reglulega úr stað og skipti um felustað. Níu ár eru nú liðin síðan Bin Laden slapp frá Tora Bora fjallavirkinu í Afganistan áður en loftárásir Bandaríkjamanna grönduðu því að mestu leyti og síðan þá hefur hann verið á stöðugum flótta.

Samkvæmt upplýsingum uppljóstrarans hélt bin Laden sig að mestu í Pakistan næstu árin á eftir og faldi sig í fjallahéruðum og afskektum þorpum. Uppljóstrarinn fullyrðir einnig að hryðjuverkaleiðtoginn hafi nokkrum sinnum farið í leiðangra yfir landamærin til Afganistans, þrátt fyrir að þar hefðu verið tugþúsundir bandarískra hermanna á þeim tíma.

Vestrænu leyniþjónusturnar virðast hins vegar ávallt hafa verið einu skrefi á eftir Osama og stundum munaði aðeins sólarhring á því að næðist í skottið á honum að hans sögn. Uppljóstrarinn hætti síðan að veita upplýsingarnar í lok árs 2004 og eftir það minnkaði upplýsingaflæðið til muna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×