Erlent

Hægláta kvenhetjan sem enginn vissi um

Óli Tynes skrifar
Eileen Nearne.
Eileen Nearne.

Þegar Eileen Nearne lést á heimili sínu fyrr í þessum mánuði fannst enginn ættingi til þess að borga fyrir útför hennar.

Þessi 89 ára gamla einsetukona var sögð vera alltaf glaðleg en hún hélt sig mest útaf fyrir sig í strandbænum Torquay sem er um 300 kílómetra vestur af Lundúnum.

Það leit því út fyrir að Eileen fengi fátæklingsgröf eins og það er kallað í Bretlandi. Nú hafa hinsvegar samtök uppgjafahermanna tekið mál hennar að sér og hún verður jarðsett með fullum heiðri.

Bunki af heiðursmerkjum

Þegar verið var að leita að gögnum um ættingja á heimili hennar eftir andlátið fannst bunki af heiðursmerkjum og bréf á frönsku.

Það kom í ljós að Eileen hafði verið njósnari hjá Special Operations Executive í síðari heimsstyrjöldinni.

Það var leynisveit sem sjálfur Winston Churchill setti á fót til þess að njósna og vinna skemmdarverk að baki víglínunnar í þeim löndum sem nazistar höfðu hertekið.

Í klóm Gestapo

Eileen talaði reiprennandi frönsku og árið 1944 var hún send til Frakklands, þá 23 ára gömul.

Hún lenti í klónum á Gestapo með talstöð í fórum sínum og var pyntuð. Henni tókst að sannfæra þá um að hún væri bara burðardýr sem ekkert vissi um njósnir og var sleppt.

Eileen var tvisvar til viðbótar handtekin af SS og send annarsvegar Ravensbruck og hinsvegar í þrælabúðir í Póllandi.

Flótti og feluleikur

Henni tókst í bæði skiptin að komast undan og síðustu mánuði stríðsins var hún ásamt tveim vinkonum í felum hjá presti í Leipzig í Þýskalandi sem skaut yfir þær skjólshúsi.

Hún kom þaðan úr felum þegar bandarískar hersveitir komu til borgarinnar.

Lofsungin í fjölmiðlum

Síðan upplýst var um fortíð Eileen Nearne hafa breskir fjölmiðlar lofsungið hana. Meðal annars var hennar getið á leiðarasíðu The Times, sem sagði að ekki væri of seint að heiðra hana.

Hætláta einsetukonan í Torquay er loksins orðin hetja.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×