Erlent

Lítill árangur náðist í Alpabæ

Ekki ég! Peter Sands, forstjóri breska bankans Standard Chartered, ræðir um efnahagsbatann í Davos. Fréttablaðið/AP
Ekki ég! Peter Sands, forstjóri breska bankans Standard Chartered, ræðir um efnahagsbatann í Davos. Fréttablaðið/AP

Starfsfólk banka og fjármálafyrirtækja er álíka óvinsælt nú um stundir og hryðjuverkamenn. Þetta hefur bandaríska stórblaðið Wall Street Journal eftir Donald Moore, stjórnarformanni bandaríska bankans Morgan Stanley, á ársþingi Alþjóðaefnahagsráðsins í Alpabænum Davos í Sviss. Þinginu lauk í gær.

Helsta umræðuefni þingsins voru aðgerðir og leiðir til að keyra heimshagkerfið upp úr kreppunni. Erlendir fjölmiðlar eru á því að almennt hafi lítill árangur náðst á þinginu utan samstöðu um ný störf og að viðskiptafrelsi væri lykill að efnahagsbatanum.

Wall Street Journal segir forráðamenn banka og fjármálafyrirtækja hafa verið í varnarstöðu á þinginu í ár í skugga hamfaranna og setið undir hótunum ríkisstjórna og eftirlitsaðila um róttækar aðgerðir gegn þeim, svo sem hertu eftirliti og hækkunum á gjöldum. Hótanir sem þessar hafa heyrst vestanhafs um nokkurra mánaða skeið en hafa fengið byr undir báða vængi á meginlandi Evrópu upp á síðkastið. Á meðal þess er innleiðing „Glass-Steagall“-laganna svokölluðu, sem sett voru í Bandaríkjunum í kjölfar kreppunnar miklu árið 1932. Þau meina viðskiptabönkum að stunda fjárfestingarbankastarfsemi.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×