Erlent

Hringurinn þrengist um Moat

Lundúnalögreglan hefur sent fjörutíu vopnaða lögreglumenn til Norður-Umbríu til þess að hjálpa til við leit að morðingjanum sem þar leikur lausum hala. Fé hefur verið lagt til höfuðs honum.

Lögreglan hefur nú fundið tjald sem Raoul Moat hefur notað til þess að fela sig í eftir að leit að honum hófst síðastliðinn laugardag.

Tjaldið fannst skammt frá smábænum Rothbury og lögreglan kveðst viss um að hann haldi til einhversstaðar á þeim slóðum.

Moat sem er 37 ára gamall dyravörður á skemmtistöðum særði fyrrverandi kærustu sína og barnsmóður og skaut nýjan kærasta hennar til bana á laugardaginn tveim dögum eftir að hann var látinn laus úr fangelsi.

Þar sat hann fyrir ofbeldisverk. Á sunnudeginum særði hann svo lögreglumann alvarlega með því að skjóta hann í andlitið með haglabyssu.

Lögreglan telur hann vera vopnaðan tveim byssum og hafa næg skotfæri.

Lundúnalögreglan hefur nú sent liðsauka til Norður-Umbíu. Það eru fjörutíu vopnaðir lögregluþjónar meðal annars þjálfaðar leyniskyttur.

Í bréfi frá Moat segist hann ekki vera hættulegur almenningi. Hinsvegar ætli hann að drepa eins marga lögregluþjóna og hann geti.

Tíu þúsund sterlingspund hafa verið boðin þeim sem gefur upplýsingar sem leiða til þess að Moat verði handtekinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×