Erlent

Til hamingju elsku Ringo

Óli Tynes skrifar
Richard Starkey er sjötugur í dag.
Richard Starkey er sjötugur í dag.

Ringo Starr er einn af þessum alsaklausu útlendingum sem hafa verið dæmdir til þess að vera Íslandsvinir. Hann hefur enda tvisvar stigið fæti á skerið.

Í fyrra skiptið mætti hann á hátíð í Atlavík þar sem hann náttúrlega sló í gegn. Og árið 2007 kom hann hingað ásamt Yoko Ono til þess að kveikja á friðarsúlu Lennons.

Og Ringo er sjötugur í dag.

Þótt Ringo hafi í áratugi verið einn af frægustu trommuleikurum heims viðurkennir jafnvel hann sjálfur að tæknilega séð sé hann ekki í flokki hinna bestu.

Þegar John Lennon var eitt sinn spurður hvort Ringo væri besti trommuleikari í heiminum svaraði hann; „Ringo er ekki einusinni besti trommuleikarinn í Bítlunum"

Þetta var raunar bara hinn grái húmor Johns. Bæði hann og fleiri tónlistarmenn hafa sagt að tónlistarlegt framlag Ringos til Bítlanna hafi verið vanmetið.

Hann komst náttúrlega ekki með tærnar þar sem John og Paul höfðu hælana. Hvorki við lagasmíði né söng.

Stöku sinnum fékk hann þó að vera aðalsöngvari þar á meðal í tveim af vinsælustu lögum Bítlanna „Yellow Submarine" og „With a little help from my friends"

Með dálítilli hjálp frá vinum sínum varð Ringo Starr bæði frægur og ríkur.

En.....líklega hefur eðlislægur sjarmi líka hjálpað eitthvað til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×