Erlent

Á fjórða tug hafa farist i óveðri í Portúgal

Heimir Már Pétursson skrifar
Ástandið er slæmt á götum Madeira. Mynd/ AFP.
Ástandið er slæmt á götum Madeira. Mynd/ AFP.
Að minnsta kosti þrjátíu og þrír hafa farist í miklum stormi sem reið yfir portúgölsku eynna Madeira í gær. Mikil rigning og aurskriður hafa fylgt storminum sem hafa hrifið með sér bíla og hús.

Haft er eftir forseta héraðsstjórnarinnar á eynni að tæplega sjötíu manns hafi verið lagðir slasaðir inn á sjúkrahús vegna óveðursins. Madeira er stærsta eyjan í samnefndum eyjaklasa sem liggur norð-vestur af Afríku og heyra undir Portúgal.

Vegir eru lokaðir vegna aurskriða og fallinna trjáa og þá hafa brýr víða látið undan vatni og aur. Portúgölsk stjórnvöld hafa sent herskip með þyrlur og hjálpargögn áleiðis til eyjarinnar. Héraðsforsetinn hefur einnig beðið Jose Manuel Barroso forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að hlutast til um aðstoð frá sambandinu, en Barroso er Portúgali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×